Nemendur útskrifast af skyndihjálparnámskeiði

15. mar. 2006

Nemendur í 9. og 10. bekk Grunnskóla Þingeyrar með viðurkenningar sínar. Mynd: Grunnskólinn á Þingeyri.
Nemendur í 9. og 10. bekk í Grunnskólanum á Þingeyri fengu afhentar viðurkenningar frá Rauða krossi Íslands fyrir þátttöku sína á skyndihjálparnámskeiði, en nemendur sóttu alls 24 kennslustundir í skyndihjálp sem var valáfangi í skólanum.

Karen Lind Richardsdóttir og Hildur Sólmundsdóttir eru nemendur í skólanum. Þær sögðu að námskeiðið hefði verið mjög fræðandi og margt sem þær vissu ekki fyrirfram.

?Við lásum í skyndihjálparbókinni og fórum svo yfir hlutina á glærum,? sögðu Karen og Hildur. ?Við gerðum líka ýmislegt verklegt eins og að gera endurlífgunartilraunir á dúkkunni.?

Hildur og Karen með skyndihjálparbrúðurnar.
-Ef þið kæmuð að slysstað, haldið þið að þið gætuð brugðist rétt við?
?Maður veit aldrei en maður gæti örugglega gert eitthvað eftir að hafa farið á námskeið. En svo er náttúrulega æskilegt að sækja svona námskeið á tveggja ára fresti. Það er ekki nóg að hafa bara farið einu sinni, ? sögðu þær Karen og Hildur.

-Haldið þið að þetta komi að gagni í framtíðinni?
?Það er gott að kunna grundvallaratriðin svo að ég held að þetta muni koma að gagni ef að eitthvað kemur fyrir. Það er að segja líka ef maður getur haldið ró sinni ef eitthvað gerist. En það er betra að kunna og þurfa ekki en að þurfa og kunna ekki!? sögðu þessar skynsömu skólasystur að lokum.

Þessi hópur er annar hópurinn sem fær slíkar viðurkenningar fyrir skyndihjálparnámskeið í skólanum. Fyrsta hópinn skipuðu nemendur 9. og 10. bekkjar veturinn 2003-2004.