Tíu ára afmæli handverks- og tómstundamiðstöðvarinnar á Flateyri

28. feb. 2006

Það var Rauði krossinn, sveitarfélagið og sjóðurinn Samhugur í verki sem stóðu að því að starfsemi handverkshússins fór af stað eftir sjófljóðið 1995 og var fyrst og fremst hugsað sem sálrænn stuðningur við samfélagið á Flateyri.

Handverkshúsið hóf starfsemi sína 27. janúar 1996 í litlu húsnæði í Brynjubæ, þar sem einnig var rekið félagsstarf eldri borgara í Önundarfirði. Starfsemin flutti seinna í stærra húsnæði, Félagsbæ, sem var gamla kaupfélagshúsið á Flateyri.

Fjölþætt starfsemi er í húsinu. Auk þess að vera handverksmiðstöð og vettvangur fyrir félagsstarf eldri borgara er þar verslunin Purka, alþjóðlegt brúðusafn og opið kaffihús að sumarlagi. Húsið hefur einnig verið nýtt fyrir fundi, námskeiðahald og tónleika.

Á tíu ára afmælinu  var opnuð handverkssýning með munum sem unnir hafa verið á þeim tíma sem húsið hefur starfað. Einnig var vegleg veisla, fjöldi manns mætti, skoðaði sýninguna og þáði kaffi. Starfinu bárust margar góðar afmælisóskir, kveðjur og gjafir.

Rauði krossinn óskar Félagsbæ áframhaldandi velfarnaðar í þýðingarmiklu starfi.