Nordred björgunaræfing vegna ferjuslyss

12. maí 2006

Hrefna Magnúsdóttir, Þorbjörg Finnbogadóttir, Auður Ósk Aradóttir, Bryndís Friðgeirsdóttir og Sigrún Halldórsdóttir. Þær settu upp fjöldahjálparstöð og tóku á móti á annað þúsund manns og komu þeim síðan áleiðis til Reykjavíkur þar sem sjálfboðaliðar og starfsfólk tóku á móti þeim í Laugardalshöllinni.

Rauði kross Íslands tók þátt í björgunaræfingunni Nordred sem stóð yfir dagana 3. og 4. maí ásamt björgunarráðstefnu sem haldin var á sama tíma. Æfð voru viðbrögð við björgun fólks af erlendu skemmtiferðaskipi með um 1700 manns um borð sem rýma þurfti vegna bruna.

Atvikið átti að eiga sér stað við Hornbjarg. Um var að ræða skrifborðsæfingu og samskipti milli almannavarnanefndar Ísafjarðarbæjar og samhæfingarstöðvar almannavarna við að útvega búnað og mannskap til að takast á við þetta umfangsmikla verkefni.

Hlutverk Rauða krossins í aðgerð sem þessari er stórt og þarf m.a. að skrá og hýsa alla þá sem ekki eru slasaðir og í þessu tilfelli voru þeir yfir eitt þúsund. Um var að ræða fólk frá 35 þjóðlöndum og þurfti að upplýsa öll sendiráð og ræðisskrifstofur um afdrif þeirra fólks, útvega túlka og huga að þörfum þess og veita sálrænan stuðning.

Gert var ráð fyrir að sjálfboðaliðar deilda Rauða krossins á Norðurlandi kæmu til aðstoðar á Ísafirði. Einnig þurfti aðstoð deilda frá Suðurlandi og Suðurnesjum á höfuðborgarsvæðið þar sem rekin var risavaxin fjöldahjálparstöð með um 1000 manns, því allt gistirými í Reykjavík var fullt.

Ísafjarðardeild Rauða krossins tók virkan þátt í æfingunni og æfðu fulltrúar deildarinnar hvernig hægt er að hýsa og fæða um 1000 manns á Ísafirði uns hægt yrði að flytja fólkið til Reykjavíkur.

Að sögn Harðar Högnasonar formanns Ísafjarðardeildar Rauða krossins var hann ánægður með æfinguna og sitt fólk sem stóð vaktina í tvo daga.

?Þetta var mun stærri æfing en fólk hafi gert sér í hugarlund í upphafi en sú vinna skilaði sér í dýrmætri reynslu fyrir Rauða kross fólkið og eins mun þetta skýra betur hlutverk Rauða krossins fyrir samstarfsaðilum í aðgerð sem þessari,? sagði Hörður.

Það kom fram í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur sýslumanns á fundi eftir æfinguna að hún hefði verið ánægð með alla sem tóku þátt og hefðu hlutverki að gegna í neyðaraðgerðum sem þessum.

?Ég er yfir mig ánægð yfir frammistöðu Rauða krossins. Æfingin gekk í heild sinni vel, en sérstaka athygli vöktu sjálfboðaliðar Rauða krossins sem settu upp fjöldahjálparstöð og stóðu sig alveg frábærlega. Gott skipulag, kraftmikið starf og síðast en ekki síst toppmanneskjur,? sagði Sigríður.

?Það leikur ekki nokkur vafi á því eftir þessa æfingu að neyðarvarnir á svæðinu eru í góðu lagi og allar einingar unnu sem einn maður,? sagði Sigríður að lokum.

Nordred samkomulagið gengur út á samvinnu Norðurlandanna varðandi neyðaraðgerðir og aðstoð hvað varðar mannskap og búnað ef til stóráfalls kemur í einhverju landanna. Í þessari æfingu var ákveðið að óska eftir erlendri aðstoð og voru m.a. fengin tvö vettvangssjúkrahús frá norska Rauða krossinum. Hingað mætti reyndur sendifulltrúi norska Rauða krossins sem fulltrúi Noregs í æfingunni með gögn á pappírum sem á þurfti að halda.

Haldið var utan um flæði fólks í land, frá Ísafirði og til útlanda. Áfallahjálparteymið var sent á pappír til Ísafjarðar og Hjálparsíminn 1717 var virkjaður. Skipulagðir voru flutningar á fólki frá Ísafirði í samvinnu við fulltrúa Vegagerðarinnar. Útvegaður var matur fyrir þúsundir manna, handklæði og teppi.

Fulltrúar neyðarnefndar höfuðborgarsvæðisins skipulögðu móttöku á fólki frá Ísafirði og opnun fjöldahjálparstöðvar. Skaffa átti hreinlætispakka Rauða krossins sem í er tannbursti, tannkrem, sjampó, svitalyktareyðir og handklæði.

Rauði krossinn mun nýta þann lærdóm sem hlaust við þátttöku í æfingunni og vinna að því í framhaldinu að fara yfir þau atiði sem betur máttu fara til að bæta neyðarvarnakerfi félagsins í heild og gera það skilvirkara þannig að hægt verði að takast á við neyðaratburð sem þennan.