Foreldrar ungra barna á Ísafirði læra skyndihjálp

3. apr. 2007

Rauði krossinn hitti fyrir mæður með ung börn sín í Ísafjarðarkirkju og fræddi þær um almenna skyndihjálp og undirstöðuatriði endurlífgunar. Einnig var rætt um helstu hættur sem börnum stafa af í umhverfinu og hvernig ber að varast þær.

Um árabil hafa foreldrar komið saman í Ísafjarðarkirkju á miðvikudagsmorgnum og átt saman notalega samveru með börnum sínum. Foreldrarnir hafa svo fengið ýmsa aðila úr samfélaginu til að koma með fræðslu sem tengist börnum og barnauppeldi. Að þessu sinni fengu þau Bryndísi Friðgeirsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vestfjörðum til að vera með fræðslu um skyndihjálp.

Glæsilegur hópur ísfirskra barna.
Jóhanna Fylkisdóttir móðir sem stödd var á foreldramorgni og hafði frumkvæði um fræðsluna sagði að foreldrar ungra barna hefðu gott af því að fræðast um fyrstu viðbrögð ef eitthvað komi upp á svo sem ef aðskotahlutur sæti fastur í hálsi eða ef barnið hætti að anda. „Það er mjög mikilvægt fyrir foreldra og aðra sem eru með börn í sinni umsjón að kunna réttu tökin þegar á reyndi,” sagði Jóhanna.    

Rauði krossinn hefur menntað fjölda leiðbeinenda um allt land sem eru tilbúnir til að halda námskeið í almennri skyndihjálp og sér félagið um að endurmennta sína leiðbeinendur með reglulegu millibili. Auk þess að bjóða upp á full námskeið er einnig hægt að fá sérhæfð námskeið fyrir ákveðna hópa og stutta fyrirlestra.