Byggjum betra samfélag á Vestfjörðum

8. maí 2007

Rauða kross deildirnar á norðanverðum Vestfjörðum héldu opinn fund á fimmtudaginn þar sem kynnt var nýtt verkefni sem ber yfirskriftina Viltu taka þátt í að byggja betra samfélag?

Í kynningu sem send var út til allra íbúa á svæðinu var fólk beðið um að velta eftirfarandi spurningum fyrir sér; Langar þig til að kynnast nýju fólki og leyfa því að kynnast þér? Viltu læra eitthvað nýtt eða kenna öðrum það sem þú kannt? Viltu gefa eitthvað af þér og þiggja eitthvað í staðinn?

Á fundinum kynnti Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum niðurstöður könnunar sem félagið lét gera og ber yfirskriftina Hvar þrengir að? Þar kemur fram hvaða hópar í samfélaginu standa höllustum fæti. Anna Ingadóttir verkefnisstjóri kynnti „Byggjum betra samfélag” sem er samheiti yfir áherslur Rauða krossins í málsvarastarfi félagsins og hefur þann megintilgang að rjúfa einangrun fólks og vinna gegn mismunun í samfélaginu.

Að lokum stýrði Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar Rauða krossins umræðum um möguleika íbúa á starfssvæðum deildanna á Vestfjörðum á að byggja betra samfélag og hvaða aðferðum hægt er að beita til að ná því markmiði. Hrefna sagði að umræðurnar kæmu til með að nýtast til áframhaldandi vinnu við verkefnið og síðan gæfist öllum íbúum á svæðinu kostur á að sitja námskeið og vera með í verkefninu sem sjálfboðaliðar. 

Námskeiðið verður haldið í haust og er opið öllum sem áhuga hafa á að taka þátt í að byggja betra samfélag með Rauða krossinum.