Opið hús hjá Ísafjarðardeild

10. maí 2007

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins var opið hús hjá Ísafjarðardeild Rauða krossins þann 6. maí. Kynnt voru verkefni deildarinnar og boðið upp á vöfflur og heitt kakó.

Hrefna Magnúsdóttir formaður deildarinnar kynnti nýtt verkefni sem er að fara af stað í samvinnu við aðrar deildir á Vestfjörðum. Verkefnið ber yfirskriftina Byggjum betra samfélag og felur í sér hvata til að gerast vinafjölskylda eða vinur á þeim forsendum að báðir hafa eitthvað að miðla til hins.

Þriðjudaginn 8. maí bauð Ísafjarðardeildin fólki upp á fræðslu um endurlífgun í Verslunarmiðstöðinni Neysta á Ísafirði. Var fjallað um mikilvægi þess að geta brugðist rétt við þegar á reynir og boðið upp á að prófa blástur og hnoð. Var fólk ýmist að prófa það í fyrsta sinn eða rifja upp það sem það hefur áður lært á skyndihjálparnámskeiðum.