Starfið á árinu 2006

14. maí 2007

Á Vestfjörðum eru sex deildir: Bolungarvíkurdeild, Dýrafjarðardeild, Ísafjarðardeild, Súðavíkurdeild, Súgandafjarðardeild og Önundarfjarðardeild. Svæðið nær frá Bolungarvík til Dýrafjarðar. Í svæðisráði eru fulltrúar allra deilda, formaður er Ingibjörg Sigfúsdóttir stjórnarmaður í Súgandafjarðardeild. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Vestfjörðum er til húsa í sama húsnæði og Ísafjarðardeild að Suðurgötu 12.

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum sinna hefðbundnum Rauða kross verkefnum eins og neyðarvörnum og einstaklingsaðstoð. Auk þess eru ýmis verkefni í gangi í samræmi við þarfirnar á starfssvæði hverrar deildar. Deildirnar hafa samvinnu um mörg verkefni og eru allar deildir með þegar um svæðasamstarf er að ræða.

Fatasöfnun
Fatasöfnun eykst jafnt og þétt og eru fötin send jafnóðum til Fataflokkunarstöðvarinnar í Hafnarfirði. Góð samvinna er við Fataflokkun og geta deildir fengið sendan til sín fatnað í ákveðnum stærðum fyrir fólk í vanda. Á Ísafirði er tekið á móti fatnaði og sjálfboðaliðar setja fötin á bretti. Flytjandi sér um flutninginn, deildunum að kostnaðarlausu.

Neyðarvarnir
Ísafjarðardeild tók þátt í almannavarnaæfingunni Norden þar sem æfð var björgun farþega af skemmtiferðaskipi. Fengu nýir fjöldahjálparstjórar ágæta þjálfun á þessari æfingu.

Fræðsla
Námskeið í sálrænni skyndihjálp fyrir fjöldahjálparstjóra var mjög vel sótt. Leiðbeinendur voru Jóhann Thoroddsen og Margrét Blöndal.

Nú eins og undanfarin ár fékk Menntaskólinn á Ísafirði fræðslu fyrir nemendur og kennara um Rauða krossinn og starfsemi hans.

Leikskólabörn komu í heimsókn á svæðisskrifstofuna eins og undanfarin ár.

Námskeið í almennri skyndihjálp voru haldin fyrir atvinnulífið og hefur Ísafjarðardeild samið við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um að auglýsa námskeiðin og halda utan um skráningu.

Geðheilbrigðismál
Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum hafa undanfarin tvö ár haldið utan um starf með sjálfshjálparhópum fólks með geðraskanir og aðstandendur þeirra. Hóparnir fóru af stað í kjölfar námskeiðs sem var á Ísafirði 4. – 5. mars 2005. Námskeiðið var haldið á vegum Rauða kross Íslands í samvinnu við Landlæknisembættið og Geðhjálp og ætlað áhugafólki um geðheilbrigðismál. Hóparnir hafa haft aðstöðu í húsnæði Rauða krossins á Ísafirði. Auk þess að sjá hópunum fyrir aðstöðu hafa deildirnar á Vestfjörðum verið þeirra bakhjarl með námskeiðahald og sérfræðiþjónustu.

Á næsta ári stendur til að opna endurhæfingarstöð/athvarf í samstarfi við fleiri aðila á svæðinu og þarf hópurinn því ekki að nýta húsnæði Rauða krossins á sama hátt og áður. Það er þó fullur vilji deildanna á Vestfjörðum að styðja áfram við bakið á þeim. Annar sjálfshjálparhópur hefur starfað í húsnæði Rauða krossins. Sá hópur var stofnaður að frumkvæði Rauða krossins og Stígamóta í kjölfar opins fundar með fulltrúum frá Stígamótum.

Eldri borgarar
Á hverju ári fara deildirnar í 5 – 7 daga sumarferð með eldri borgurum og hefur það verið fastur liður í yfir 20 ár. Fyrir suma skiptir þetta miklu máli þar sem þetta er oft  eina tækifæri þeirra til að ferðast um landið.

Heimsóknaþjónusta
Heimsóknaþjónustan heldur áfram á vegum deildanna en ekki hefur tekist að bæta við gestgjöfum þó ljóst sé að þörfin er fyrir hendi á Vestfjörðum eins og á annars staðar á landinu.

Handverkshús
Handverkshúsið Félagsbær er staðsett á Flateyri og þar fer fram fjölbreytt félagsstarf. Önundarfjarðardeild var einn af stofnendum og leggur fram fé og sjálfboðaliða í starfið. Starfsemin hófst eftir snjóflóðið sem féll á Flateyri árið 1995 og er því orðinn fastur liður í lífi íbúanna.
 
Vinadeildarsamstarf
Deildirnar hafa lokið vinadeildarsamstarfi við deildina í Uzice í Serbíu og er verið að undirbúa samstarf við deild í Gambíu.

Gamla apótekið
Deildirnar hafa lokið beinni þátttöku í rekstri ungmennahússins Gamla apóteksins en taka þess í stað þátt í að styrkja sérstök Rauða kross verkefni, til dæmis er  Skyndihjálparhópur Rauða krossins starfandi í húsinu.

Þjóðahátíð
Deildirnar tóku þátt í Þjóðahátíð á Vestfjörðum sem haldin var í Menntaskólanum á Ísafirði á vegum Róta, félags áhugafólks um menningarfjölbreytni. Einnig var gott samstarf við Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum um málefni innflytjenda.

Gengið til góðs
Allar deildir tóku þátt í að ganga til góðs eins.