Rauði krossinn aðstoðar bæjarbúa í Hnífsdal

12. jún. 2007

Rauða kross deild Ísafjarðar aðstoðaði í Hnífsdal um helgina vegna þess umsátursástands sem skapaðist þegar ölvaður maður notaði skotvopn. 

Húsnæði deildarinnar var opnað þar sem frætt var um eðlileg og óeðlileg viðbrögð við áfalli. Sérstaklega var farið yfir þau atriði sem þarf að útskýra fyrir börnum sem upplifa alvarlega atburði. Fólkið fékk heim með sér bæklingana Aðstoð við börn eftir áfall, Þegar lífið er erfitt og Sálræn skyndihjálp og mannlegur stuðningur sem gefnir eru út af Rauða krossi Íslands. Einnig var bent á símanúmer Rauða krossins til að hafa við hendina ef spurningar vöknuðu.

Ákveðið hefur verið að bjóða þeim sem upplifðu atburðinn á fund næsta miðvikudagskvöld klukkan 20. Þar mun Jóhann Thoroddsen verkefnastjóri Rauða krossins í sálrænum stuðningi fara yfir viðbrögð við áfalli.