Afríkuandi á aðalfundi Dýrafjarðardeildar

10. mar. 2008

Það ríkti Afríkuandi á aðalfundi Dýrafjarðardeildar sem haldinn var um helgina. Auk venjulegra aðalfundastarfa hlýddu fundarmenn á fræðsluerindi  um Gambíu í Afríku.

Deildin er í vinadeildasamstarfi við Rauða kross deildina í North Bank í Gambíu. Þegar sjálfboðaliðar voru þar í heimsókn á síðasta ári keyptu þeir  ýmsan varning sem hefur verið til sölu. Um er að ræða farandmarkað sem ferðast milli deilda á Vestfjörðum og er settur upp við ýmis tækifæri. Gestir aðalfundarins voru að vonum ánægðir að geta styrkt gott málefni og fá tækifæri til að festa kaup á varningi sem er sjaldséður hér á landi að ógleymdri fræðslu um land og þjóð í Gambíu.