Sparisjóðir Bolungarvíkur og Vestfirðinga styrkja verkefni Rauða krossins um þrjár milljónir króna

18. okt. 2007

Sparisjóður Bolungarvíkur og Sparisjóður Vestfirðinga hafa sameinast um að vera bakhjarlar Rauða krossins á Vestfjörðum í skyndihjálp og neyðarvörnum.

Sex Rauða kross deildir á Vestjörðum hafa tekið sig saman um að vinna að stóru verkefni sem tekur mið af nýrri stefnu Rauða kross Íslands til 2010 og ber yfirskriftina, Byggjum betra samfélag. Leiðarljós stefnunnar er að bregðast við neyð jafnt innanlands sem utan og veita aðstoð sem gerir fólk hæfara til að takast á við erfiðleika og bregðast við áföllum. Félagið stendur einnig vörð um mannréttindi, heilbrigði og virðingu einstaklinga. 

Eitt af markmiðum stefnunnar er að efla neyðarvarnir og neyðaraðstoð vegna áfalla og hamfara og í því skyni ætla deildirnar að efla starf sitt og samvinnu í tengslum við neyðarvarnir, skyndihjálp og sálrænan stuðning. Markmiðið er að vinna markvisst að útbreiðslu skyndihjálpar allt frá börnum á leikskólaaldri til aldraðra og að viðhalda og þróa neyðarvarnarskipulag í takt við mismunandi þarfir fólks og breytingar í samfélaginu, meðal annars með tilliti til fólks af erlendum uppruna. 

Hlutverk Rauða krossins í neyðarvörnum verði einnig kynnt meðal almennings, stofnana og fyrirtækja. Til þess að geta sinnt þessu verkefni hafa deildirnar fengið Sparisjóð Bolungarvíkur og Sparisjóð Vestfirðinga til að vera bakhjarlar næstu þrjú árin. Upphæðin sem deildirnar fá í þetta sérstaka verkefni sem áætlað er að standi yfir í þrjú ár eru þrjár milljónir.