Ársskýrsla 2007

23. apr. 2008

Á Vestfjörðum eru starfandi sex deildir; Bolungarvíkurdeild, Dýrafjarðardeild, Ísafjarðardeild, Súðavíkurdeild, Súgandafjarðardeild og Önundarfjarðardeild. Allar deildir eiga einn fulltrúa í svæðisráði og eru þeir kosnir á svæðisfundi á haustin. Formaður svæðisráðs er Sigríður Magnúsdóttir í Önundarfjarðardeild. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Vestfjörðum er staðsett á Ísafirði. Svæðisfulltrúi er Bryndís Friðgeirsdóttir.

Rauða kross deildirnar á Vestfjörðum sinna hefðbundnum Rauða kross verkefnum eins og neyðarvörnum, einstaklingsaðstoð og skyndihjálp. Auk þess eru ýmis verkefni í gangi hjá deildunum í samræmi við stefnu félagsins og þarfir á starfssvæði hverrar deildar.
Deildirnar hafa samvinnu um nokkur verkefni og eru undantekningalaust allar deildir með þegar um svæðasamstarf er að ræða.

Á svæðisvísu er vinadeildarsamstarf við deild í North Bank í Gambíu. Fulltrúi frá Gambíu kom í heimsókn til deildanna á Vestfjörðum í apríl og kynnti sér starf á svæðinu. Sendinefnd frá Vestfjörðum fór í heimsókn til North Bank í Gambíu í nóvember og skrifað var undir samning um samstarf. Deildirnar héldu Gambíumarkað hver á sínu svæði þar sem vörur frá Gambíu voru seldar til styrktar konum sem eru að koma upp matjurtagarði í North Bank.

Deildirnar hafa undanfarin þrjú ár haldið utan um starf með sjálfshjálparhópum fólks með geðraskanir. Hóparnir fóru af stað í kjölfar námskeiðs sem var á Ísafirði 4. – 5. mars 2005 á vegum Rauða krossins, Landlæknisembættisins og Geðhjálpar. Hóparnir höfðu í fyrstu aðstöðu í húsnæði Rauða krossins á Ísafirði og deildirnar á Vestfjörðum verið þeirra bakhjarl með námskeiðahald og sérfræðiþjónustu. Endurhæfingarstöð/athvarf sem heitir Vesturafl var á árinu opnað á Ísafirði fyrir hópinn í samstarfi við fleiri aðila á svæðinu. Deildirnar verða áfram bakhjarl hópsins með því að styðja við starfsemina með rekstrarframlagi árlega til Vesturafls og fræðslu enda heyrir verkefnið undir eitt af áhersluverkefnum félagsins.
 
Í október tóku allar deildir þátt í að kynna starf félagsins í sérstakri kynningaviku sem Rauði kross Íslands stóð að. Fjölmennur borgarafundur var haldinn á Ísafirði undir yfirskriftinni Byggjum betra samfélag á Vestfjörðum. Boðið var upp á ókeypis skyndihjálparnámskeið fyrir bæjarbúa og opið hús var hjá deildunum. Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið í nóvember fyrir 15 manns og fengu fjórir vinir gestgjafa á Ísafirði. Enn eru þó heimsóknavinir sem bíða eftir að komast í heimsóknir.

Svæðisfundur var haldinn í Heydal í Ísafjarðardjúpi í september og voru fulltrúar frá öllum deildum á fundinum. Svæðisráðið fundar reglulega og eru fundirnir oftast haldnir á svæðisskrifstofunni.

Nemendur í 10. bekk grunnskólans á Ísafirði koma árlega í heimsókn á svæðisskrifstofuna og fá fræðslu um Rauða krossinn. Einnig koma leikskólabörn reglulega í heimsókn í tengslum við námsefnið Hjálpfús.

Fatasöfnun hefur aukist jafnt og þétt hjá öllum deildum og eru fötin send jafnóðum í fataflokkun. Á Ísafirði er aðstaða til að taka á móti fötum og sjálfboðaliðar setja fötin á bretti sem flutt eru með Flytjanda deildunum að kostnaðarlausu. Samvinna er við fataflokkun í Hafnarfirði og geta deildir fengið sendan til sín fatnað í ákveðnum stærðum fyrir fólk í vanda.