Vinna að öryggi aldraðra

6. des. 2011

Grein sem birtist í Bæjarins besta á Ísafirði bb.is

Sjálfboðaliðar Ísafjarðardeild Rauða kross Íslands ásamt samstarfsaðilum vinna að verkefni öryggismál aldraðra sem felst í átta klukkustunda námskeiðum sem verið er að prufukeyra. „Þetta er tilraunaverkefni á landsvísu, við vitum ekki til þess að það hafi verið gert í þessu formi annars staðar,“ segir Hrefna Magnúsdóttir, formaður deildarinnar. „Námskeiðin eru unnin í samvinnu við ýmsa aðila svo sem heimahjúkrun og heimaþjónustu, slökkviliði og sjúkraflutningamenn og félag eldri borgara en gerð voru kennslumyndbönd með efninu í Bolungarvík í fyrra.

Til stendur að námskeiðin hefjist í janúar en prufunámskeið hafa vakið mikla lukku. „Þetta er sambland af skyndihjálp, sálrænum stuðningi, öryggi og slysavarnir á heimilum. Fólk fær með sér heimaverkefni auk þess sem í námskeiðunum er falin eftirfylgd og kynning á þjónustu fyrir eldri borgara á svæðinu og hjálpartækjum.

Við byrjuðum að! fara í gegnum það í fyrra með samstarfsaðilunum hvað þyrfti að felast í þessum námskeiðum. Þá voru ekki til slík námskeið og því urðum við að búa þau til frá grunni. Við fengum til þess styrk árið 2007 frá Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Bolvíkinga til að efla neyðarvarnir og öryggi.“

Hrefna segir að 631 einstaklingur á norðanverðum Vestfjörðum sé á aldrinum 65 til 100 ára. „Ef við náum því að fá 400-500 manns á námskeiðin þá verðum við mjög glöð. Markmiðið er að minnsta kosti að sem flestir sæki þau og afli sér þekkingu um þessa hluti.“

Eftir áramót verður boðið upp á áfangann Sjá 102 sem felst í kynningu á sjálfboðaliðastarfi. „Hluti af því er að kynnast öllum hliðum sjálfboðaliðastarfs innan deildarinnar. Nemendur munu einnig taka þátt í þessu öryggisverkefnum aldraðra, t.d. hvað varðar eftirfylgnina.

Dagur sjálfboðaliða var í gær, 5. desember, en að auki stendur nú alþjóðlegt ár sjálfboðaliða yfir. „Af þessu tilefni vil ég vekja athygli á öflugu sjálfboðaliðastarfi hér vestra,“ segir Hrefna. „Á þessum degi er mikilvægt að fólk viti af því góða starfi sem fer fram hjá sjálfboðaliðum á öllum sviðum. Það eru margir að gera góða hluti þó svo að kannski taki ekki margir eftir því.“