Svæðisfundur deilda á Vestfjörðum

8. okt. 2008

Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum héldu svæðisfund á sunnudaginn. Fulltrúar allra deildanna sóttu fundinn og voru fundarmenn einhuga um að samvinnan hafi skilað góðum verkefnum sérstaklega þar sem sumar deildir eru litlar á fámennum svæðum.

Mörg ný verkefni voru sett á framkvæmdaáætlun og var lögð meiri áhersla en áður á að vinna með eldri borgurum og unga fólkinu. Einnig lýstu fundarmenn því yfir að mikil þörf væri fyri barnastarf með börnum innflytjenda sem fór af stað í fyrra að frumkvæði Ísafjarðardeildar. Deildirnar munu allar koma að því verkefni í auknum mæli.

Siðareglur Rauða krossins hlutu umfjöllun en þær eru á lokasprettinum í meðförum sjálfboðaliða. Fundarmenn lýstu ánægju með reglurnar og voru sammála um þörfina fyrir félagið að hafa slíkar reglur.

Jón þorsteinn Sigurðsson formaður Urkí var sérstakur gestur fundarins og gaf deildarfólki góð ráð við að byggja upp ungmennastarf á svæðinu.

Í lok fundarins var boðið upp á jógaæfingar enda hafa sjálfboðaliðar lagt mikið á sig undanfarna daga við störf fyrir Rauða krossinn. Sjálfboðaliðar stóðu því upp endurnærðir eftir fundinn þó hann hæfist snemma á sunnudagsmorgni daginn eftir að gengið var til góðs.