Sjálfboðaliðar á Vestfjörðum æfa fjöldahjálp

14. okt. 2008

Góð þátttaka var á námskeiði  í fjöldahjálp sem Rauða kross deildir á Vestfjörðum stóðu að síðast liðinn laugardag. Þátttakendur voru þjálfaðir í að taka þátt í fjöldahjálp á neyðartímum með því að taka á móti óslösuðum og aðstandendum. Farið var yfir hlutverk sjálfboðaliða sem þurfa að veita fólki mannlegan stuðning á erfiðum tímum. 

Rauði kross Íslands annast fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf samkvæmt samningi við Almannavarnir ríkisins og eru deildir um allt land sífellt að þjálfa sjálfboðaliða. Í því felst m.a. að fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar á hættu- og neyðartímum og þar tekið á móti óslösuðum og aðstandendum þeirra sem lent hafa í slysi eða þurfa að yfirgefa heimili sín. Ef fólk hefur misst heimili sín þarf að finna því húsnæði, útvega fatnað og hugsanlega veita fyrstu fjárhagsaðstoð. Rauði kross Íslands aðstoðar við uppbyggingu eftir að fyrsta áfallið er gengið yfir.

Við þetta starf nýtur Rauði kross Íslands góðs af víðtæku stuðningsneti um 2500 íslenskra sjálfboðaliða og alheimshreyfingar landsfélaga Rauða krossins. Fjöldahjálparstjórar eru kjarninn í neyðarvarnarskipulagi Rauða krossins. Um allt land standa hundruð karla og kvenna vaktina, tilbúin að láta til sín taka ef kallið kemur.