Aðfangadagskvöld – Opið hús í Vesturafli á Ísafirði

22. des. 2011

Rauði krossinn á Ísafirði og Vesturafl verða með opið hús á aðfangadagskvöld fyrir þá sem eru einir eða vilja fá félagsskap. „Hingað eru allir velkomnir, hvort sem það eru einstaklingar sem vilja félagsskap eða fjölskyldur sem hafa áhuga á að vera í stærri hópi fólks“ segir Sigríður Magnúsdóttir starfsmaður í Vesturafli, sem er staðsett á Mánagötu 6 í bænum. „Hingað koma bæði Íslendingar og útlendingar, fólk sem kýs að eyða jólunum með öðrum og fólk sem kemst ekki heim til sín um jólin.“

Opna húsið hefur heppnast vel undanfarin ár. „Ég fæ ekki betur heyrt á þeim sem þáðu boðið í fyrra að kvöldið hafi verið mjög vel heppnað. Það hefur verið mismikil þátttaka en það myndast mjög þægileg og heimilisleg stemmning.“

Eru þetta fjórðu jólin sem opið hús er í Vesturafli á aðfangadagskvöld og eru allir velkomnir.

„Gaman er að geta þess að fyrir síðustu jól bárust Vesturafli matargjafir frá einstaklingum á svæðinu.“ segir Sigríður. „Maturinn í fyrra var dekkaður með matargjöfum frá ýmsum aðilum og þökkum við þeim kærlega fyrir.“