Lilja Jónsdóttir hlýtur viðurkenningu hjá Rauða krossi Íslands

patreksfjordur.is

27. maí 2009

Á aðalfundi Rauða kross Íslands þ. 16.maí s.l. var Lilju Jónsdóttur veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi starf í þágu Rauða krossins. Þrjár aðrar konur voru meðal þeirra sem fengu viðurkenningu við þetta tækifæri en það voru þær Sigrún Guðbergsdóttir Reykjavíkurdeild, Aðalheiður Vagnsdóttir Akureyrardeild og Birna Zophaniasdóttir Grindavíkurdeild. Þær fengu allar viðurenningarskjal, blómvönd og barmmerki Rauða krossins.

Lilja hefur verið sjálfboðaliði Rauða krossins í mörg ár og s.l. 17 ár séð um verkefnið „Föt sem framlag“. Hennar þáttur hefur falist í því að sjá um að safna saman því sem eldri borgarar í Selinu prjóna og safna, peysur, húfur, sokkar, teppi, bleiur, samfellur o.fl. Eldri borgarar á Patreksfirði hafa verið duglegir að vinna efni í þessa barnafatapakka sem koma sér vel víða og aðallega í Afríku. Lilja hefur haldið utan um þetta, pakkað inn og sent suður. Í dag eru 14 fallegir pakkar tilbúnir til sendingar héðan frá Patreksfirði og hafa þeir vakið athygli fyrir hversu vel þeir eru gerðir og innihaldið fallegt.

Það má geta þess að Lilja fékk einnig viðurkenningu á aðalfundi Rauða kross deildar Vestur-Barðastrandarsýslu þ. 8.mars s.l. og henni sem og eldri borgurum þökkuð vel unnin störf.

Á myndinni sést Lilja taka við viðurkenningunni úr höndum Gunnars Frímannssonar, stjórnarmanns í Rauða krossi Íslands þ. 16. maí s.l. í Vík í Mýrdal.

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru á aðalfundinum: