Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Á Vestfjörðum starfa sex deildir:
Bolungarvíkurdeild, Dýrafjarðardeild, Ísafjarðardeild, Súðavíkurdeild, Súgandafjarðardeild og Önundarfjarðardeild.

Svæðisskrifstofan er á Ísafirði í sama húsi og Ísafjarðardeild og formaður svæðisráðs er Sigríður Magnúsdóttir fulltrúi í Önundarfjarðardeild. Allar deildirnar eiga fulltrúa í svæðisráði og eru þeir kosnir á svæðisfundi sem haldinn er árlega að hausti. Svæðisfulltrúi er Bryndís Friðgeirsdóttir.

Verkefni
Deildir Rauða krossins á Vestfjörðum sinna hefðbundnum Rauða kross verkefnum sem eru neyðarvarnir, einstaklingsaðstoð og skyndihjálp. Auk þess eru ýmis verkefni í gangi hjá deildunum í samræmi við stefnu félagsins og þarfir á svæði hverrar deildar. Deildirnar hafa samvinnu um nokkur verkefni sem unnin eru á svæðisvísu og eru undantekningalaust allar deildir með í öllum svæðisverkefnum.

Vinadeildasamstarf
Deildirnar á Vestfjörðum eru í vinadeildasamstarfi við deildina í North Bank í Gambíu. Deildin í North Bank sendi tillögur að verkefnum sem teknar voru fyrir á svæðisfundi og samþykkt var að styrkja uppbyggingu matjurtagarðs sem er kvennaverkefni á svæðinu og aðstoða við að senda sjálfboðaliða á fræðslunámskeið.

Í Grunnskólanum á Ísafirði hafa sjálfboðaliðar unnið með nemendum í 8. bekk við að koma á bréfaskrifum milli nemenda í Gambíu og Ísafirði. Áform eru uppi um að bjóða ungmennum frá Gambíu til Vestfjarða.

Verkefni með skólum
Sú hefð hefur skapast undanfarin ár að 10. bekkur kemur í heimsókn á svæðisskrifstofuna og fær fræðslu um Rauða krossinn. Einnig koma leikskólabörn reglulega í heimsókn í tengslum við námsefnið Hjálpfús sem kennt er í öllum leikskólum á svæðinu.

Rauða kross bandið
Á Vestfjörðum starfar Rauða kross bandið sem eru sjálfboðaliðar sem fara á dvalarheimili eldri borgara á svæðinu og syngja með íbúum. Söngbækur voru útbúnar og þeim dreift þannig að fólk getur tekið undir í söngnum. Hópstjóri Rauða kross bandsins er Sigríður Magnúsdóttir formaður svæðisráðs.

Kynning félagsins
Þann 8. maí stóðu deildirnar á Vestfjörðum saman að kynningu á starfi Rauða krossins. Farið var með kynningu á Hlíf dvalarheimili eldri borgara á Ísafirði og Rauða kross bandið spilaði og söng með Hlífarbúum. Heimsóknavinir og aðrir sjálfboðaliðar tóku þátt í kynningunni.

Starf með eldri borgurum
Á hverju ári fara sjálfboðaliðar í 5-7 daga sumarferð með eldri borgurum. Þessar ferðir hafa verið farnar í yfir 20 ár. Fyrir marga eldri borgara skipta þessar ferðir miklu máli þar sem þetta er þeirra eina tækifæri til að ferðast um landið.

Svæðisfundur
Hinn árlegi svæðisfundur var haldinn í Súðavík og var formaður Urkí sérstakur gestur fundarins.

Námskeið
Námskeið var haldið á Ísafirði í október fyrir fjöldahjálparstjóra á vegum allra deildanna. Næstu helgi á eftir gafst svo þátttakendum tækifæri til að taka þátt í flugslysaæfingu á Þingeyri ásamt öðrum viðbragðsaðilum á svæðinu.

Það er fastur liður að kynna skyndihjálp fyrir ung börn á mömmumorgnum í Ísafjarðarkirkju og Bolungarvíkurkirkju.

Göngum til góðs
Allar deildir á Vestfjörðum tóku þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs. Vel var tekið á móti söfnunarfólki og safnaðist svipuð upphæð og fyrir tveimur árum. Í tengslum við söfnunina var Ísafjarðardeild með sérstaka kynningu á verkefninu fyrir nemendur Menntaskólans á Ísafriði.

Fatasöfnun
Fatasöfnun eykst jafnt og þétt og eru tveir fatagámar staðsettir á Ísafirði og annar í Súgandafirði. Deildirnar tóku þátt í sparifatasöfnun sem landsskrifstofan fór af stað með fyrir jólin. Mikið af sparifötum safnaðist og fengu nokkrar fjölskyldur spariföt fyrir jólin.

Vesturafl
Vesturafl er miðstöð fyrir fólk með skert lífsgæði sem stofnuð var árið 2007. Rauða kross deildirnar eru bakhjarl fyrir Vesturafl með sérstöku framlagi úr verkefnasjóði og frá deildunum sjálfum.

Geðheilbrigðismál
Í febrúar var haldinn fræðslu- og handleiðslufundur fyrir stuðnings- og sjálfshjálparhópa. Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins, Einar Guðmundsson geðlæknir og sérfræðingur í sálgreiningu hópa og Margrét Ómarsdóttir formaður Barnageðs og fulltrúi aðstandenda buðu upp á fræðslu- og handleiðslu.

Sólstafir
Deildirnar eru bakhjarl fyrir Sólstafi, systursamtök Stígamóta. Stuðningurinn er í formi styrks til að afla fræðslu fyrir sjálfboðaliða samtakanna. Samtölin voru stofnuð árið 2006 af frumkvæði Rauða kossins á Vestfjörðum og höfðu samtökin í fyrstu aðstöðu á Svæðisskrifstofunni en hafa nú fengið eigið húsnæði á leigu á Ísafirði.

Styrkveitingar
Sparisjóðirnir á Vestfjörðum veittu deildunum á svæðinu styrk til að standa að verkefnum í skyndihjálp og neyðarvörnum. Það gerir deildirnar færar um að fara í átak í fræðslu á svæðinu og haldin hafa verið nokkur námskeið í sálrænni og almennri skyndihjálp.

Heimsóknavinir
Heimsóknavinir starfa í Ísafjarðardeild og eru þrír virkir heimsóknavinir að störfum. Heimsóknavinirnir hittast af og til og fara yfir starfið og skiptast á skoðunum. Heimsóknavinum er alltaf boðið á námskeið og viðburði sem eru á döfinni hjá deildunum.

Viðbrögð vegna efnahagshruns
Bankar, sparisjóðir, grunnskólar og leikskólar voru heimsóttir, rætt var við starfsfólk og afthentir bæklingar um sálræna skyndihjálp og mannlegan stuðning. Námskeið voru haldin í sálrænni skyndihjálp á Ísafirði, Bolungarvík og Þingeyri. Fræðslufyrirlestur var haldinn fyrir almenning í Háskólasetri Vestfjarða um sálrænan stuðning.

Fulltrúar Rauða krossins voru með umfjöllun í svæðisútvarpinu um úrræði Rauða krossins á tímum efnahagsþrenginga. Fulltrúar Rauða krossins á svæðinu tók þátt í borgarafundi ásamt fulltrúum félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, vinnumiðlun og fleirum á svæðinu og í kjölfarið var tekið saman efni í bækling sem inniheldur upplýsingar um hvert fólk í erfiðleikum getur leitað.