7. des. 2006 : Fjallað um Rauða krossinn í Útvarpi Akraness

Laugardaginn 2. desember var hópur sjálfboðaliða hjá Akranesdeild Rauða krossins með þátt í útvarpi Akranes. Það var Sundfélag Akraness sem stóð að útvarpsútsendingum fyrstu helgina í desember, og hefur þetta verið liður í fjáröflun félagsins undanfarin átján ár. Á Akranesi hafa skapast hefðir í kringum þessar útsendingar og hlustun er mikil.

Í þætti sjálfboðaliðanna var fjallað um Henry Dunant og upphaf Rauða krossins, markmiðunum sjö gerð skil og sagt frá fjölbreyttum verkefnum sem framundan eru á aðventunni hjá Akranesdeildinni. Einnig voru lesin ljóð og fluttur pistill um hvernig hver og einn getur lagt sitt af mörkum til þess að byggja betra samfélag, en sjálfboðaliðahópurinn hefur verið að skipuleggja ýmis verkefni á Akranesi undir kjörorðunum Byggjum betra samfélag.