19. jún. 2007 : Skyndihjálp og fjölmenning

Allir starfsmenn hjá Smellinn hf. hafa undanfarið sótt skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum á Akranesi, en fyrirtækið leggur mikið upp úr því að öryggismálum sé vel fyrir komið. Að bjóða starfsfólki sínu upp á námskeið í skyndihjálp er liður í því að fylgja eftir þessari frábæru stefnu í öryggismálum og fá þátttakendur greidd laun meðan á námskeiði stendur. Námskeiðin fóru fram að vinnutíma loknum í Rauða kross húsinu.

Um 80 manns starfa hjá Smellinn hf., þar af um 35 af erlendum uppruna. Akranesdeildin hefur skipulagt sjö námskeið. Eitt fyrir pólska starfsmenn, eitt fyrir starfsmenn frá Litháen, eitt námskeið á ensku fyrir starfsmenn frá Portúgal, Tékklandi og Frakklandi. Þá hafa verið haldin fjögur námskeið fyrir íslenska starfsmenn.

Þátttakendur hafa verið mjög ánægðir með framtakið, ekki síst erlendu starfsmennirnir sem telja það ótvíræðan kost að geta sótt námskeið í skyndihjálp á sínu eigin tungumáli. Leiðbeinendur á námskeiðunum sem fóru fram á pólsku og litháísku sóttu leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp hjá Rauða krossi Íslands í febrúar og er mikill fengur að því að fá þau í hóp skynihjálparleiðbeinenda félagsins.