28. feb. 2008 : Opnir dagar

Þessa vikuna standa yfir Opnir dagar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, en þá leggja nemendur hefðbundið nám á hilluna og takast á við önnur og ólík verkefni.

Rauði krossinn á Akranesi  var með tvö innlegg á opnum dögum.  Anna Lára Steindal fjallaði um Ef bara ég hefði vitað, sálrænan stuðning fyrir ungt fólk á vef Rauða krossins, og kynnti líka verkefnið Hvað viltu vita? sem felst í kynfræðslu og ráðgjöf fyrir ungt fólk á aldrinum 13 – 20 ára. Ráðgjöfin er veitt á msn  ([email protected]), í tölvupósti ([email protected]) eða í hjálparsímanum 1717.

27. feb. 2008 : Sagan að baki hugmyndar

Í morgun heimsótti hópur barna í 5. og 6.bekk í Grundaskóla Rauða krossinn á Akranesi og fékk fræðslu um starfsemi félagsins. Heimsóknin var liður í valáfanga sem fjallar um mannúðarstörf og skyndihjálp.

Krakkarnir byrjuðu á því að horfa á Sagan að baki hugmyndir, sem segir frá því hvernig Henry Dunant fékk hugmyndina að stofnun Rauða krossins og hrinti henni í framkvæmd. Voru krakkarnir sammála um að það væri mjög hvetjandi til góðra verka að átta sig á því hversu miklu Dunant kom til leiðar með því að fylgja mannúðarhugsjón sinni eftir.  Þegar sýningu myndarinnar lauk var fjallað um verkefni Rauða krossins á  Akranesi og spjallað vítt og breytt um mannúðarstarf, fordóma og  hvernig krakkar geta hjálpað þeim sem eiga um sárt að binda.

25. feb. 2008 : Erlend börn í Borgarbyggð

Haldinn var í síðustu viku samstarfsfundur Borgarfjarðardeildar Rauða krossins og Grunnskólans í Borgarnesi með foreldrum erlendra nemenda sem stunda nám í Grunnskólanum. Foreldrar frá hinum ýmsu löndum sóttu fundinn.

Paola Cardenas verkefnisstjóri í málefnum útlendinga á landsskrifstofu Rauða krossins hélt erindið ,,Að aðlagast í nýju samfélagi/þjóðfélagi“. Paola kemur frá Venesúela og hefur búið á Íslandi í átta ár. Talaði hún m.a. um hvernig væntingar og draumar sem eiga að rætast í nýju landi standast oft ekki þegar nýr hversdagsleiki gerir vart við sig og hlutirnir eru ekki eins einfaldir og maður hélt.

21. feb. 2008 : Aðalfundur heimsóknavina.

Sjúkra- og heimsóknavinir Akranesdeildarinnar héldu aðalfund sinn 20. febrúar. Á fundinum var tilkynnt að Sveinsína Árnadóttir, sem verið hefur hópstjóri frá því að verkefninu var hrint úr vör árið 1974, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem stjórnandi. Sveinsínu þökkum við kærlega frábær störf undanfarna áratugi og óskum henni velfarnaðar.  

Á næstu vikum verður ráðist í ítarlega kynningu á verkefninu með það að markmiði að fjölga heimsóknavinum. Þeir sem hafa áhuga á því að starfa sem sjálfboðaliði að því að rjúfa félagslega einangrun og auka lífsgæði fólks sem á erfitt er bent á að hafa samband á skrifstofu deildarinnar í síma 431 2270 eða senda tölvupóst á [email protected].

Á fundinum var einnig fjallað um  nýtt verkefni sem sjúkravinir eru að skipuleggja,  en það er að sauma sjúkravesti, ekki ólík þeim sem sjúkraflutningamenn klæðast,  á bangsa sem hafðir verða í sjúkrabílum á Akranesi . Bangsarnir eru gjöf til barna sem þurfa á sjúkraflutningum að halda

19. feb. 2008 : Gestir frá Gambíu

Um þessar mundir eru staddir á Íslandi tveir sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Gambíu, þeir Alien og Alagier. Þeir hafa verið að kynna sér störf Rauða krossins á Íslandi og kynna það starf sem fram fer á vegum Rauða krossins í Gambíu og fræða Íslendinga um land sitt og þjóð.

Alien og Alagier heimsóttu Akranesdeild Rauða krossins í vikunni og fóru m.a. í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Fyrst hittu þeir nemendur í lífsleikni, fluttu fyrirlestur um störf gambíska Rauða krossins og sýndu fræðslumynd um lífið og fólkið í Gambíu. Að því loknu fóru þeir í kynnisferð um skólann í fylgd Atla Harðarsonar aðstoðarskólameistara.

13. feb. 2008 : 112 dagurinn á Akranesi

Mikið var um dýrðir í andyri verslunarhúss Bónuss, Apóteks Vesturlands og Tölvulistans mánudaginn 11.2 þegar Rauði krossinn á Akranesi og sjúkraflutningamenn vöktu athygli þeirra sem leið áttu um húsið á neyðarnúmerinu og mikilvægi skyndihjálpar.

Uppákoman hófst með stuttri athöfn kl. 14.00 þegar Skarphéðinn Magnússon, stjórnarmaður Akranesdeildarinnar, veitti Eiríki Kristóferssyni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2007, en hann brást rétt og vel við í alvarlegu vinnuslysi í Norðuráli fyrir réttu ári síðan. Einnig tóku fulltrúar allra leikskóla og grunnskóla á Akranesi og í Hvaljfarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands, á móti veggspjaldinu Getur þú hjálpað þegar á reynir.  Rauði kross Íslands í samvinnu við N1 gefur öllum skólum á landinu slíkt veggspjald. Að athöfn lokinni var boðið upp á blóðþrýstings- og blóðsykurmælingu, vegfarendum bauðst að spreyta sig við endurlífgun, börn fengu að skoða sjúkrabílana og skyndihjálpartöskur voru til sölu.

13. feb. 2008 : Sjúkra- og heimsóknarvinir á námskeiði í sálrænum stuðningi

Laugardaginn 9. febrúar sóttu sjúkra- og heimsóknarvinir hjá Akranesdeild Rauða krossins námskeið í sálrænum stuðningi. Leiðbeinendur voru Jón Jóhannsson, djákni, og Guðrún K. Þórsdóttir, djákni og sálfræðingur.

Á námskeiðinu var fjallað um sálrænan stuðning almennt, rætt um Alzheimer sjúkdóminn – einkenni og viðbrögð við þeim, handleiðslu fyrir heimsóknarvini og fleira sem tengist starfi sjáflboðaliða í heimsóknarþjónustu.