27. maí 2008 : Fjömennur kynningarfundur

Á þriðja hundrað íbúar á Akranesi mættu á kynningarfund um málefni flóttafólks í Tónbergi, sal Tónlistarskólans, í gær. Fundurinn var haldinn af Akraneskaupstað, Rauða krossi Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Markmið fundarins var að veita íbúum á Akranesi upplýsingar um flóttamannaverkefni almennt og ástandið í Al – Waleed fóttamannabúðunum sérstaklega og fluttu Guðrún  Ögmundsdóttir, formaður flóttamannanefndar, og Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands erindi í því skini. Hallur Magnússon, fyrrverandi félagsmálastjóri á Höfn í Hornafiðri og Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ, fjölluðu um reynslu annarra sveitarfélaga af flóttamannaverkefnu, Jón Á. Kalmasson, heimspekingur, flutti stutta hugvekju um sammannlegar væntingar til lífsins óháð uppruna eða öðrum tilfallandi eiginleikum fólks og Dragana Zastavnikovic, sem kom sem flóttamaður til Ísafjarðar árið 1996, sagði frá reynslu sinni.

26. maí 2008 : Skátarnir fjórir héldu tombólu

Skátarnir fjórir, Brynjar Mar, Arnar Freyr, Hinkrik Freyr og Patrekur héldu á dögunum tombólu til styrktar Rauða krossinum á Akranesi og söfnuðu 4000 krónum. Þeir skruppu af skátafundi í dag og afhentu söfnunarféð. Rauði krossinn kann þeim félögum bestu þakkir fyrir framtakið.

21. maí 2008 : Pólski ræðismaðurinn í Borgarnesi

Pólski ræðismaðurinn, Michal Sikorski kom í Borgarnes á dögunum og átti fund með bæði löndum sínum og Íslendingum.

Michal ræddi við stjórn Borgarfjarðardeildar Rauða krossins, skólastjóra Grunnskólans í Borgarnesi, formann Margmenningarfélags Borgarfjarðar, aðstoðarskólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar, námsráðgjafa frá Borgarbyggð, yfirlögreglustjórann í Borgarnesi og hluta af sveitastjórn Borgarbyggðar. Það var ánægjulegt að sjá að margir fulltrúar stofnana í sveitarfélaginu létu sig málið varða og mættu til fundar.

20. maí 2008 : Sveinsína hlaut viðurkenningu á aðalfundi

Aðalfundur Rauða kross Íslands var haldinn í Kópvogi laugardaginn 19. maí síðast liðinn. Á fundinum var Anna Stefánsdóttir kjörin formaður Rauða kross Íslands.

5 sjálfboðaliðar hlutu viðurkenningu fyrir framlag til mannúðarstarfa, þar á meðal Sveinsína Andrea Árnadóttir sem starfað hefur sem sjúkra- og heimsóknarvinur með Akranesdeildinni í yfir þrjátíu ár.
Sveinsína, eða  Bíbí einsog hún er jafnan kölluð, hóf sjálfboðaliðastörf fyrir Akranesdeild 1974 og hefur í mörg ár gengt stöðu hópstjóra sjúkra – og síðan heimsóknarvina. Hún var ein af stofnfélögum þessa hóps sem stofnaður var 1999, sem hafði það að markmiði að sinna sjúkum og einmanna.

6. maí 2008 : Skyndihjálp

Föngulegur hópur starfsfólks Svæðissrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi sótti nýverið námskeið í skyndihjálp í Rauða kross húsinu á Akranesi. Það var Gísli Björnsson, skyndihjálparleiðbeinandi sem kenndi þeim réttu tökin við endurlífgun og fyrstu hjálp.

 

5. maí 2008 : Deildafólk á Vesturlandi hittist

Um helgina hittist Rauða kross fólk af Vesturlandi í Stykkishólmi til skrafs og ráðagerða. Með því að halda sameiginlegan fund af þessu tagi standa vonir til þess að hægt sé að efla samstarf deilda á milli og skiptast á góðum hugmyndum. Sú hugmynd kom fram að halda fundi af þessu tagi tvisvar á ári, að hausti og vori.
Á laugardaginn komu saman þeir svæðisráðsfulltrúar sem áttu heimangengt en á sunnudeginum kom annað stjórnarfólk saman, margir með fjölskyldur sínar en áhersla var lögð á að um fjölskylduhelgi væri að ræða. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, svæðisfulltrúi á Höfuðborgarsvæði, kynnti stöðu neyðarvarnamála í landshlutanum og fjallað var um gang vinadeildarsamstarfsins við Rauða krossinn í Gambíu.
Fundargestir voru allir sammála um ágæti þess að hittast, fara yfir stöðu sameiginlegra verkefna og leggja á ráðin um ný. Þá var almenn ánægja með fyrirkomulagið, þ.e. að Rauða kross fólk hefði tök á að hafa fjölskyldur sínar með og veita sínum nánustu þannig góða innsýn í það starf sem Rauði krossinn sinnir. Smáfólkinu leiddist heldur aldeilis ekki, enda aðstaða í Grunnskólanum í Stykkishólmi öll til fyrirmyndar.

5. maí 2008 : Hjálmar í Heiðarskóla

Á föstudaginn komu þau Gerða Bjarnadóttir, starfsmaður Rauða krossins á Akranesi, og Sigurður Þór Elísson, verkefnisstjóri umferðarfræðslu í Grundaskóla, akandi á Sjúkrabíl í Heiðarskóla. Erindið var þó ekki að sækja einhvern veikan eða slasaðan heldur að færa nemdendum í 3. bekk reiðhjólahjálma að gjöf. Þeir munu án efa koma að góðum notum á komandi hjólasumri.

5. maí 2008 : Sveitaferð

Í liðinni viku var farin skemmtileg sveitaferð frá Rauða kross húsinu á Akranesi þegar nýju Skagamennirnir frá Palsestínu, ásamt fríðu föruneyti, heimsóttu Jóhönnu geitabónda að Háafelli í Borgarfirði.
Í ferðinni gafst kostur á því að skoða dálítið af íslenskri náttúru og kynnast lífinu í sveitinni. Fyrst skoðaði hópurinn útihúsin þar sem geiturnar biðu æstar í kossa og knúserí – sem var nú ekki látið auðveldlega eftir þeim. Síðan bauð Jóhanna hópnum  inn í þjóðlegan málsverð, þar sem meðal annars var boðið upp á geitamjólk og geitakæfu.
Að því búnu var haldið heim, eftir ánægjulega heimsókn á alíslenskan sveitabæ.

2. maí 2008 : Samvinna Akranes- og Borgarfjarðardeilda

Fulltrúar Akranes- og Borgarfjarðardeildar hittust í síðustu viku í þeim tilgangi að skoða möguleika á því að efla samstarf og samvinnu