23. jún. 2008 : Góð stemning á Alþjóðadegi flóttamanna

Flóttamannaverkefni íslenskra stórnvalda og Rauða krossins var kynnt fyrir helgi á Alþjóðadegi flóttamanna á Akranesi. Thomas Straub, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi fluttu ávarp í tilefni dagsins.

Fyrr um daginn var Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra afhent fyrsta eintakið af Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna í íslenskri þýðingu.

20. jún. 2008 : Alþjóðadagur flóttamanna 20. júní

Um 40 milljónir manna um allan heim hafa hrakist frá heimkynnum sínum vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka.  Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn í öðru landi, en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra.  Í dag, á Alþjóðadegi flóttamanna, er vakin sérstök athygli á aðstæðum þessa fólks um gjörvallan heim.

Að þessu tilefni stendur Rauði krossinn að dagskrá á Akranesi, heimabæ næsta hóps flóttamanna sem kemur til Íslands í haust. Klukkan 16:00 verður flóttamannaverkefni íslenskra stjórnvalda og Rauða krossins kynnt við kaffihúsið Skrúðgarðinn, í sérstöku tjaldi frá Flóttamannastofnun.  Þar gefst fólki einnig færi á að kynna sér ferlið sem flóttafólk þarf að ganga í gegnum áður en því er veitt hæli í öðru landi.  Thomas Straub, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi flytja ávarp.  Allir eru velkomnir.

16. jún. 2008 : Endurhæfingarhúsið HVER opnaði formlega fimmtudaginn 12. júní

Það var opið hús að Kirkjubraut 1  fyrir bæjarbúa þar sem þeir gátu kynnt sér starfsemina.

Það voru í kringum 80 manns sem komu í heimsókn og þáðu kaffiveitingar sem voru í boði ásamt því að setjast niður og spjalla við aðra gesti sem og félaga HVER.

Kolbrúnar Ingvarsdóttir, félagi í HVER, var með ljósmyndasýningu sem vakti mikla athygli og verða myndirnar til sýnis á næstu vikum.  Fólki er velkomið að koma og skoða og geta keypt myndir, en ágóðinn rennur óskiptur til starfsemi staðarins. Staðurinn er opinn alla virka daga kl. 8-16

13. jún. 2008 : Skemmtileg heimsókn

Á vorin taka sjálfboðaliðar Rauða krossins sig margir til og enda vetrarstarfið með skemmtireisum og nota um leið tækifærið til þess að kynna sér það sem aðrir sjálfboðaliðar eru að gera í öðrum deildum. Heimsóknarvinir í Kópavogu fóru í eina slíka reisu í liðinni viku og skruppu á Akranes.

Á Akranesi tók á móti þeim hópur heimsóknarvina hjá Akranesdeildinni ásamt starfsfólki deildarinnar og fjallað var stuttlega um starfsemi Rauða krossins á Akranesi. Síðan  var haldið á Safnasvæðið að Görðum þar sem gestir skoðuðu Byggðasafnið, Steinasafnið, Íþróttasafnið og Safn Landmælinga Íslands.