23. feb. 2009 : Unglingadeildinni Vestra færð vegleg peningagjöf

Í síðustu viku komu Helga Gísladóttir, formaður V-Barðastrandasýsludeild Rauða krossins og Jónas Sigurðsson til fundar við Unglingadeildina Vestra og færðu þau unglingadeildinni gjafabréf að upphæð 100.000 krónur.

Arna Margrét Arnardóttir, umsjónarmaður unglingadeildarinnar, tók við gjafabréfinu fyrir hönd unglingadeildarinnar. Þakkaði hún fyrir þennan frábæra styrk sem mun koma unglingadeildinni að góðum notum.

Unglingadeildin Vestri var endurvakinn í haust og hafa unglingar tekið starfi deildarinnar vel. Allir unglingar á svæðinu voru boðnir velkomnir og hingað til hafa Patreksfirðingar, Tálknfirðingar og Barðstrendingar verið mjög duglegir að mæta.

6. feb. 2009 : Góð þátttaka á námskeiðum á Vesturlandi

Rauða kross deildir á Vesturlandi hafa staðið fyrir fimm námskeiðum í sálrænum stuðningi á síðustu tveimur mánuðum.  Á þessi fimm námskeið mættu samtals 104 manns. Athygli vekur að af þessum fjölda eru milli 80 og 90 manns frá opinberum stofnunum og leik- og grunnskólum á Vesturlandi.

Námskeiðin eru 4 klst. að lengd og er markmið þeirra að þátttakendur kynnist gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

Svæðisráð og forráðamenn deilda hafa við skipulagningu námskeiðanna leitað eftir  samstarfi við opinbera aðila og skólastjórnendur á þeim stöðum þar sem þegar hafa verið haldin slík námskeið, og hefur þeim umleitunum undantekningarlaust verið vel tekið eins og tölur um mætingu sýna og eru víða dæmi um að námskeiðin hafi verið og verði felld inn í starfsdaga kennara.