20. okt. 2009 : Hugleiðingar að nýlokinni kynningarviku

ERTU TIL ÞEGAR Á REYNIR eru einkunnarorð nýliðinnar kynningarviku Rauða kross Íslands. Ég tel að allir sjálfboðaliðar, starfsmenn og aðrir sem að kynningarvikunni komu geti verið sammála um hún hafi tekist langt framar vonum.

15. okt. 2009 : Akranesbúar mynduðu rauðan kross

Ríflega 100 manns mættu á Merkurtúnið á Akranesi í gær til að búa til Rauðan kross.

14. okt. 2009 : Líf og fjör í kynningarviku

Það hefur verið líf og fjör í Rauða kross húsinu á Akranesi þessa vikuna, en nú stendur sem hæst kynningarvika Rauða kross Íslands, og margt á döfinni. Dagurinn í dag hófst á smávegis kaffisamsæti þar sem lagt var á ráðin um dagana framundan. Klukkan 13.00 mætir Prjóni prjón prjónahópur og galdrar eitthvað dásamlegt fram að vanda, en þess má til gamans geta að hópurinn verður með basar á Vökudögum. Frá klukkan fimm til sjö í dag verða sjálfboðaliðar á ferðinni um bæinn að safna liðsauka og segja frá því að í kvöld klukkan 20.15 verður opið hús í Rauða kross húsinu þar sem fjallað verður um helstu verkefni deildarinnar, auk liðsaukaverkefnisns.  Slegið verður í vöfflur og heitt kaffi á könnunni. Á morgun stefnum við svo að því að setja met á Merkurtúni. Þá stefnum við rauðklæddum Skagamönnum saman til þess að mynda rauðan kross sem myndaður verður úr lofti fyrir fjölmiðla.  Rauði krossinn er stærsta mannúðarhreyfing í heimi – vilt þú vera með?

12. okt. 2009 : Rauði krossinn á „súpufundi“ á Patreksfirði

Á Patreksfirði hefur sú skemmtilega hefð verið viðhöfð í tæpt ár að halda vikulega „súpufundi” í sjóræningjahúsinu, sem er nýuppgerð vélsmiðja og stendur á Vatneyri, en húsið var byggt snemma á síðustu öld. Á súpufundunum sem SKOR þekkingarsetur stendur fyrir, gefast fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri til að kynna starfsemi sína eða fjalla um valin málefni. Fundargestir hittast í hádeginu, borða saman súpu dagsins og hlusta á hálftíma umfjöllun um fyrirfram auglýst málefni.

 Í síðustu viku fór formaður V-Barðastrandarsýsludeildar Rauða krossins, Helga Gísladóttir í heimsókn í sjóræningjahúsið og flutti fundargestum kynningu á starfi Rauða krossins. Fór Helga yfir starfsemi félagsins á alþjóðasviði, innanlandssviði, fatasöfnunar auk þess sem hún gerði starfsemi deildarinnar ýtarleg skil. Að lokum kynnti Helga hvað helst væri framundan í starfi deildarinnar og bar þar hæst núverandi Rauðakrossvika og söfnun í LIÐSAUKA.

8. okt. 2009 : Ávextir fjölmenningarsamfélagsins

Fólksflutninar hafa verið hluti af mannkynssögunni frá upphafi til okkar daga. En samfara aukinni hnattvæðingu og vaxandi samskiptum ríkja á milli hafa fólksflutningar og málefni innflytjenda orðið flóknari.  Tækninýjungar á sviði upplýsingaflutnings og samgangna ýta svo enn frekar undir þessa þróun.  Við vitum miklu meira um það sem er að gerast í heiminum -og með þessari nýju vitneskju skapast ný sýn og ný ábyrgð.  Við getum ekki snúið okkur undan og látið einsog annað fólk og afdrif þess í heiminum komi okkur ekki við. Öll sækjumst við í grundvallaratriðum eftir sömu lífsgæðum, hvar í veröldinni sem við fæðumst. Nú á tímum er það algengt viðhorf að fólk eigi að hafa tækifæri til þess að setjast að þar sem afkomu þess  er  borgið – þar sem draumurinn um innihladríkt og farsælt líf getur mögulega ræst. Að minnsta kosti með ákveðnum skilyrðum og innan skilgreindra marka.