26. okt. 2010 : Veröldin okkar – mömmueldhús opnar á Akranesi

Akranesdeild Rauða krossins stendur að verkefninu Veröldin okkar- mömmueldhús, sem opnaði formlega með alþjóðlegri matstofu þann 15. október. Mömmueldhúsið er virkniúrræði fyrir atvinnulausar konur af erlendum uppruna og reiknað er með að um þrjátíu konur taki þátt í því. Markmiðið er að bjóða upp á heimilsmat frá öllum heimshornum – eins og mæður kvennanna, og mæður þeirra á undan þeim elduðu fyrir fjölskylduna.

Verkefnið, sem er styrkt af Atvinnuþróunarsjóði kvenna og Evrópuári gegn fátækt og einangrun, er sett upp sem átta mánaða tilraunaverkefni til þess að mæta því atvinnuleysi og þeim erfiðleikum sem markhópurinn glímir við nú um stundir. Gert er ráð fyrir því að endurskoða þörfina í árslok 2010 og stefnt að því að búa til alvöru viðskiptatækifæri ef áhugi er fyrir því að reynslutíma loknum.