23. nóv. 2010 : Byggja sig upp á Skagastöðum

Skagastaðir eru samstarfsverkefni, Vinnumálastofnunar, Akranesdeildar Rauða krossins og Akraneskaupstaðar. Skagastaðir voru heimsóttir í Landanum á sunnudagskvöldið.

9. nóv. 2010 : Hugur og hönd starfa saman!

Handverkshópurinn hjá Grundarfjarðardeild Rauða krossins hittist á föstudögum og vinnur ötullega við að sauma, prjóna og breyta eldri flíkum í nýjar. Í hópnum er fólk á öllum aldri sá elsti 86 ára. Nú er búið að taka afraksturinn saman og setja í ungbarnapakka sem sendir verða til Hvíta Rússlands.

Séu flíkurnar taldar lætur nærri að það sé ein flík frá hverjum íbúa bæjarfélagsins. Alls mun 61 barn fá sendingu frá Grundarfirði, með hugheilum óskum um heilsu og betra líf. Rauði krossinn þakkar sínu frábæra handverksfólki sem lagði á sig mikla vinnu við að útbúa fatnaðinn.

3. nóv. 2010 : Þjóðahátíð á Akranesi

Þjóðahátíð var haldin á Akranesi í fjórða sinn sunnudaginn 31. október, en viðburðurinn er liður í dagskrá Vökudaga sem hófust á Akranesi í síðustu viku. Það er Félag nýrra Íslendinga, í samvinnu við Rauða krossinn á Akranesi, Menningarráð Vesturlands og Akraneskaupstað, sem stendur að hátíðinni.

Þátttakan í ár var með besta móti, en fólk frá meira en 25 löndum lögðu hátíðinni lið með einum aða öðrum hætti.  Árni Múli Árnason,  bæjarstjóri á Akranesi setti hátíðina, en ræðismaður Póllands var heiðursgestur. Í ár var lögð sérstök áhersla á samstarf við innflytjendur í Borgarnesi og Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi, en fjölmörg verkefni önnur eru nú í gangi sem byggja á samstarfi þessara aðila.