11. okt. 2011 : Krakkarnir í Stykkishólmi styrkja Haítí

Krakkarnir í 5. bekk grunnskólans í Stykkishólmi gáfu út blað til til styrktar hjálparstarfinu í Haití.

29. ágú. 2011 : Mannréttindi fyrir alla?

Það er þekkt staðreynd að þegar kreppir að skapast jarðvegur fyrir aukna fordóma og togstreitu í garð innflytjenda.

18. júl. 2011 : Sumarbúðir starfræktar í Stykkishólmi í sjötta sinn

Sumarbúðir fyrir fatlaða voru starfræktar í Stykkishólmi dagana 27. júní – 4. júlí síðastliðinn í Grunnskóla Stykkishólms. Sumarbúðirnar hafa verið starfræktar í vikutíma á hverju sumri síðan árið 2005 í samstarfi við Sumarbúðir á Löngumýri í Skagafirði en starfsemin er skipulögð af Svæðisráði Rauða kross deilda á Norðurlandi. Þátttakendur koma allsstaðar að af landinu og komast jafnan færri að en vilja. Gunnar Svanlaugsson skólastjóri veitti sumarbúðunum forstöðu. Sex starfsmenn komu að rekstrinum en ellefu einstaklingar sóttu sumarbúðirnar þetta árið.

Dagskráin var einstaklega glæsileg og fjölbreytt. Meðal annars var farið í siglingu um Breiðafjörð, farið í hestaferð, veiðiferð, Sögumiðstöðin í Grundarfirði heimsótt auk fjölbreyttra afþreyingarmöguleika sem boðið var upp á í Stykkishólmi. Þá fengu þátttakendur fræðslu í skyndihjálp og daglegri umhirðu líkamans.

14. júl. 2011 : Best er að sigra heiminn með brosi

Segja palestínskir sjálfboðaliðar sem starfað hafa hér á landi um hríð. Greinin um Mumma og Nael birtist í Skessuhorni 6. júlí 2011.

30. jún. 2011 : Markaður og tískusýning á Brákarhátíð

Borgarfjarðardeild Rauða krossins tók þátt í Brákarhátíðinni um síðustu helgi með ýmsum hætti.

23. jún. 2011 : Skagastaðir fá viðurkenningu á Frumkvöðladegi Vesturlands

Skagastaðir, virknisetur fyrir unga atvinnuleitendur á Akranesi, var útnefnt í 2.-3 sæti sem Frumkvöðull Vesturlands 2010, á Frumkvöðladeginum þann 10. júní, og fengu í sinn hlut 250.000 krónur. Það eru samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Vaxtarsamningur Vesturlands sem standa árlega fyrir slíkum útnefningum.

Í mars 2010 voru Skagastaðir settir á laggirnar en tóku formlega til starfa í apríl sama ár. Þetta er samstarfsverkefni Akranesdeildar Rauða krossins, Vinnumálastofnunar Vesturlands og fjölskyldusviðs Akraneskaupstaðar. Markhópurinn eru einstaklingar á aldrinum 16-30 ára. Verkefnið fór í gang í kjölfar átaksverkefnis sem Félags- og tryggingamálaráðuneytið hóf í ársbyrjun 2010 undir nafninu „Ungt fólk til athafna“. Verkefnið felst í því að virkja og hvetja atvinnuleitendur til ýmissa verkefna.

7. jún. 2011 : Sumarbúðir fyrir fatlaða - laust pláss í Stykkishólmi!

Sumarbúðir fyrir fatlaða einstaklinga, 16 ára og eldri, verða haldnar í Stykkishólmi og Löngumýri í Skagafirði í sumar eins og undanfarin ár. Vegna forfalla er enn pláss fyrir tvo á sumarbúðirnar í Stykkishólmi dagana 27. júní til 4. júlí.

Dagskrá sumarbúðanna er fjölbreytt og sniðin að því að allir geti tekið þátt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Farið er í sund og kvöldvaka haldin hvert kvöld með þátttöku sumarbúðagesta.

Gjald fyrir þátttöku vikuna í Stykkishólmi er 44.000 krónur. Þeir sem áhuga hafa geta fyllt út umsóknareyðublað á vefnum með því að smella á meira. 

17. maí 2011 : Vorferð Félagsvina kvenna af erlendum uppruna

Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna gerðu sér glaðan dag þann 15. maí og fóru í ferðalag upp á Akranes. Þar tók á móti hópnum fríður flokkur sjálfboðaliða Akranesdeildar. Tilefnið var að fagna vorinu og njóta þess að eiga góða stund saman.

Það var um 35 manna hópur kvenna og barna sem lagði af stað og álíka stór hópur sem tók á móti Félagsvinunum á Akranesi. Farið var á safnasvæðið en þar var boðið upp á ratleik, sem fólk tók misalvarlega. Einnig nutu þær þess að borða saman í fallegu húsi sem heitir Stúkuhús og byggt var í upphafi 20. aldar. Að því loknu var farið í leiki þar sem keppnisskapið sagði til sín, þá skipti engu máli hvort fólk var 7 eða 57 allir náðu að skemmta sér vel og lifa sig inn í leikina.Hægt er að sjá myndir á facebook síðu verkefnisins.

11. apr. 2011 : Borgarfjarðardeild opnaði fjöldahjálparstöð vegna ofviðris og grjóthríðar

Borgarfjarðardeild Rauða krossins opnaði fjöldahjálparstöð í húsnæði Menntaskólans í Borgarfirði um kvöldmatarleytið í gær vegna mikils ofsaveðurs sem gekk yfir landið. Lokað var fyrir umferð um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku og einnig þurfti að loka Borgafjarðarbrú vegna ofsaroks og grjóthríðar sem gekk yfir veginn við enda brúarinnar að sunnanverðu.

Milli 50 og 60 manns komu í fjöldahjálparstöðina og biðu af sér veðrið. Opnað var fyrir umferð um brúna á tíunda tímanum í gærkvöldi og héldu þeir sem voru á suðurleið för sinni áfram. Útvega þurfti fimm manns sem voru á norðurleið gistingu þar sem ekki var útlit fyrir að opnað yrði fyrir umferð um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku í gærkvöldi.

24. mar. 2011 : Ofurprjónakonan Inga Dóra

Miðvikudagar eru óvenju fjörlegir hjá Akranesdeildinni þegar meðlimir prjónahópsins koma saman og prjóna fyrir verkefnið Föt sem framlag. Og það gengur mikið undan hópnum því á síðasta ári var gengið frá 200 ungbarnapökkum sem eru nú komnir í góðar þarfir hjá börnum í Hvíta-Rússlandi.

Það má segja um hana Ingu Dóru Þorkelsdóttur að hún sé ofurprjónakona. Hún hefur verið með í hópnum frá byrjun og gefið mikið af prjónavörum. Nú er hún að hætta af þeirri ástæðu að hún er að flytja frá Akranesi og að skilnaði afhenti hún deildinni 10 ungbarnapakka.

 „Hún prjónaði allt sem fer í pakkana, það þurfti bara að bæta við bleium. Börnin sem fá pakkana frá Ingu Dóru eru heppin,“ segir Shyamali Ghosh verkefnastjóri Akranesdeildar. „Síðasta vor kom hún með svipað magn af peysum, húfum og teppum sem hún gaf í föt sem framlag verkefnið.“

23. feb. 2011 : Borgarfjarðardeild opnar glæsilega verslun

Það var mikið um að vera hjá Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands þann ellefta febrúar, því auk þess sem deildin tók þátt í 112 deginum með lögreglu, slökkviliði, sjúkraflutningamönnum og björgunarsveit opnaði deildin glæsilega verslun sem er til húsa að Borgarbraut 61. (á móti Hyrnunni).

Þrátt fyrir að veðurguðirnir væru ekki í hátíðarskapi létu Borgnesingar það ekki stoppa sig í að koma við, þiggja veitingar í tilefni dagsins, versla ódýrt og styrkja í leiðinni gott málefni en ágóði af rekstri verslunarinnar fer í hjálparstarf Rauða kross Íslands. Auk þess að bjóða upp á notaðan fatnað hefur verslunin til sölu skartgripi sem ungliðar deildarinnar framleiða af miklum myndarskap og gefa til verslunarinnar.