24. mar. 2011 : Ofurprjónakonan Inga Dóra

Miðvikudagar eru óvenju fjörlegir hjá Akranesdeildinni þegar meðlimir prjónahópsins koma saman og prjóna fyrir verkefnið Föt sem framlag. Og það gengur mikið undan hópnum því á síðasta ári var gengið frá 200 ungbarnapökkum sem eru nú komnir í góðar þarfir hjá börnum í Hvíta-Rússlandi.

Það má segja um hana Ingu Dóru Þorkelsdóttur að hún sé ofurprjónakona. Hún hefur verið með í hópnum frá byrjun og gefið mikið af prjónavörum. Nú er hún að hætta af þeirri ástæðu að hún er að flytja frá Akranesi og að skilnaði afhenti hún deildinni 10 ungbarnapakka.

 „Hún prjónaði allt sem fer í pakkana, það þurfti bara að bæta við bleium. Börnin sem fá pakkana frá Ingu Dóru eru heppin,“ segir Shyamali Ghosh verkefnastjóri Akranesdeildar. „Síðasta vor kom hún með svipað magn af peysum, húfum og teppum sem hún gaf í föt sem framlag verkefnið.“