Alþjóðleg neyðarteymi og hjálpargögn á leiðinni til Haítí

13. jan. 2010

Tíu alþjóðleg neyðarteymi Rauða krossins eru nú á leið til Haítí, en samgöngur þangað eru að mestu leyti rofnar landleiðis og í lofti. Alþjóða Rauði krossinn hefur sent átta manna matsteymi á vettvang, og níu neyðarteymi frá Evrópu og Norður-Ameríku sem skipuð eru heilbrigðisstarfsfólki og sérfræðingum til að mynda í hreinsun vatns, byggingu neyðarskýla, birgðaflutningum og fjarskiptum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí vinna nú í kapp við tímann við björgun og aðhlynningu slasaðra. Rauða kross félög á svæðinu hafa einnig sent sjálfboðaliða og hjálpargögn áleiðis til Haítí. Erfiðlega reynist að fá upplýsingar af hamfarasvæðunum þar sem símalínur eru slitnar í sundur og rafmagnslaust er að mestu.

Byrjað er að dreifa hjálpargögnum í höfuðborginni Port-au-Prince, en neyðarbirgðir Rauða krossins í landinu duga til að veita um 13.000 fjölskyldum aðstoð fyrstu dagana. Verið er að leita leiða við að senda meiri hjálpargögn frá birgðastöðvum Alþjóða Rauða krossins í Panama. Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum, og allt að 3 milljónir manna þurfi á tafarlausri neyðarhjálp að halda.

Rauði kross Íslands minnir á söfnunarsíma sinn 904 1500 vegna jarðskjálftans á Haítí. Þegar hringt er í númerið bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning. Símtalið kostar 79 kr. en sú upphæð rennur til söfnunarinnar. Einnig er hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands segir frá hjálparstarfinu á Haítí: