Vel heppnuð aðlögun flóttakvenna

Sigríði B. Tómasdóttur blaðamann á Fréttablaðinu

23. jan. 2010

Haustið 2008 komu 29 palestínskir flóttamenn til Íslands og settust að á Akranesi. Átta einstæðar mæður sem samanlagt áttu 21 barn komu hingað frá flóttamannabúðunum Al Waleed í Írak. Aðlögun hópsins að samfélaginu gengur vel og lítil hnáta hefur meira að segja bæst í hópinn eins og Sigríður B. Tómasdóttir komst að í heimsókn á Skagann. Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. janúar 2010.

Aðlögun flóttafólksins á Akranesi var undir stjórn Rauðakrossdeildarinnar á Akranesi. Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri deildarinnar, hefur fylgst með fjölskyldunum síðan hún tók á móti þeim á Heathrow á leiðinni til Íslands haustið 2008. Hún segir aðlögunina hafa gengið mjög vel. „Auðvitað er þetta enginn dans á rósum en konurnar eru ótrúlega sterkar og hafa verið mjög duglegar síðan þær komu."

Atvinnuleysi í kjölfar efnahagshruns hefur hins vegar gert það að verkum að engin úr hópi kvennanna hefur fengið atvinnu en þær hafa allar mikinn áhuga á því, að sögn Önnu Láru Steindal verkefnastjóra Rauða krossins á Akranesi. „Þær vilja allar taka þátt í atvinnulífinu og borga til baka þá aðstoð sem þær hafa þegið. En til að koma í veg fyrir allan misskilning er rétt að taka fram að núna njóta þær ekki meiri stuðnings en aðrir íbúar bæjarfélagsins sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum."

Anna Lára segir aðlögunina að öðru leyti hafa gengið afar vel. „Þær eru allar mjög virkar, duglegar að taka þátt í viðburðum hjá okkur og svo hittast þær innbyrðis og hafa einnig eignast sína vini." Allar fengu fjölskyldurnar þrjár stuðningsfjölskyldur og allar hafa myndað góð tengsl við þær.

„Ég hef lært mjög mikið af þessum konum, þær eru mjög skemmtilegar og það er lærdómsríkt að sitja og hlusta á þær vera að rifja upp hluti sem þær hafa lent í og svo fara að grínast, hlæja og skemmta sér í beinu framhaldi." Allar eru konurnar afkomendur palestínskra flóttamanna sem flúðu heimaland sitt árið 1948 þegar Ísraelsríki var stofnað og settust að í Írak. Þar nutu þau vissrar réttinda, einkum þegar landið var undir stjórn Saddams Hussein, en máttu þó ekki eignast fasteignir. Það gerði það að verkum að þegar Saddam var hrakinn frá völdum þá varð þessi hópur íbúa Íraks auðveldur skotspónn annarra íbúa og þurfti að yfirgefa heimili sín. Til urðu flóttamannabúðirnar Al Waleed. Þær eru án ríkisfangs en munu geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt að nokkrum árum liðnum.

Verkefni um útsaum í Palestínu var vel heppnað. Sett var upp sýning á Akranesi þar sem sýndur var afrakstur samverustunda í húsnæði Rauða krossin s Á Akranesi.

Sitja ekki auðum höndum
Þrátt fyrir erfitt atvinnuástand sitja konurnar ekki auðum höndum. Eins og áður sagði hafa þær tekið þátt í viðburðum Rauða krossins, ein þeirra sem var í starfsþjálfun á leikskóla í bænum hefur haldið störfum þar áfram í sjálfboðastarfi og tvær, Fatin og Abeer, eru að koma veisluþjónustu á koppinn. „Sú starfsemi hófst þannig að þær elduðu hér í húsnæði Rauða krossins fyrir nokkrar fjölskyldur. Það mæltist vel fyrir og þær hafa verið fengnar til að elda fyrir veislur og starfsemin hefur svo undið upp á sig," segir Anna Lára sem er þeim innan handar við stofnun veisluþjónustunnar.

En fleiri tíðindi eru úr hópi flóttafólksins. Í árslok 2009 fjölgaði í hópnum þegar Lina Falan Ameen Mazar eignaðist dóttur. Fréttablaðið leit við í heimsókn til Linu og barnsföður hennar Mohamed Ali Almabruk Birjam og hitti fyrir stolta foreldra.

Fjölgar í hópnum
Þrjú eldri börn Linu eru í leikskóla og skóla þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði en hið yngsta er nýfætt og það eru stoltir foreldrar sem sýna gestunum Yasmin litlu, fædda 29. desember. „Fæðingin gekk mjög vel og aðstaðan á spítalanum var frábær," segir Lina sem ræðir við blaðamann á íslensku auk þess að fá hjálp frá unnustanum Mohamed Ali Almabruk Birjam sem hún kynntist á Íslandi. Lina og Mohamed kynntust í árslok 2008 í gegnum Félag múslima á Íslandi þar sem hann situr í stjórn. Lina kann mjög vel við sig á Akranesi og segir aðlögun barna sinna hafa gengið ótrúlega vel. „Þau eru í fótbolta og keilu og hafa nóg að gera," segir hún og segir þau afar ánægð með nýja systkinið sem bæst hefur í hópinn. „Sú yngsta er á leikskóla og hún vill helst hafa hana með sér þangað," segir Mohamed Ali og bætir við að þau hafi þegar farið einu sinni í heimsókn á leikskólann með Yasmin litlu. Foreldrarnir eru mjög stoltir af litlu stúlkunni. „Hugsið ykkur, ég er frá Líbíu, Lina kemur frá Írak og er ættuð frá Palestínu og dóttir okkar er íslensk," segir Mohamed sem er afar stoltur faðir.

Hann hefur búið á Íslandi í átta ár, unnið meðal annars á hóteli og pitsustað en er atvinnulaus um þessar mundir. Hann langar að fá vinnu og hefur áhyggjur af fáum atvinnutækifærum á Akranesi, þau séu óneitanlega fleiri í höfuðborginni. Hvað verður á eftir að koma í ljós en í bili er að minnsta kosti í nógu að snúast hjá fjölskyldunni.