Sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu 1.000 skyndihjálpargögnum til Haítí

19. jan. 2010

Deildir á höfuðborgarsvæðinu brugðust skjótt við í gærkvöldi og virkjuðu sjálfboðaliða til að pakka skyndihjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans á Haítí.  Þrátt fyrir mjög stuttan lítinn fyrirvara mættu yfir 50 sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsið til að útbúa pakkana sem settir voru saman samkvæmt lista frá Alþjóða Rauða krossinum.  

„Sjálfboðaliðarnir sýndu með þessu í verki samstöðu með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Haítí sem staðið hafa vaktina sólarhringum saman frá því jarðskjálftinn reið yfir," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Það var ekki ljóst fyrr en eftir klukkan fimm í gær að nægar birgðir af þessum sjúkragögnum væru til í landinu til að uppfylla skilyrði Alþjóða Rauða krossins, og því gífurlega ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að taka þátt í þessu verkefni."

Mjög góð stemmning var í hópnum, og sannaðist þar hið fornkveðna að margar hendur vinna létt verk. Um 15 mismunandi sjúkragögnum var raðað í fötur sem auðvelt er að taka með sér á vettvang, en sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí, sem hlúð hafa að sjúkum og slösuðum frá því jarðskjálftinn reið yfir, munu nota skyndihjálpargögnin til að aðstoða íbúa á hamfarasvæðunum.

Mikill skortur er nú orðinn á sjúkragögnum og var Rauði kross Íslands sérstaklega beðinn um að útvega Alþjóða Rauða krossinum þau hjálpargögn sem send verða til Haítí með flugvél utanríkisráðuneytisins sem fer til að sækja íslensku alþjóðabjörgunarsveitina á morgun. Auk skyndihjálpargagnanna verður sendur loftkælibúnaður, díselrafstöðvar og önnur sjúkragögn sem nota á í tjaldsjúkrahúsum, færanlegum læknasveitum og tjaldbúðum hjálparstarfsmanna.

Síminn ákvað að styrkja Rauða krossinn um eina milljón króna til kaupa á hjálpargögnunum auk þess að gefa Rauða krossinum kostnað við símtöl í söfnunarsíma Rauða krossins sem er 79 kr. fyrir símtalið. Landlæknisembættið gaf andlitsgrímur, og fjölmörg fyrirtæki gáfu eða veittu mikinn afslátt á vörum sínum til að hægt væri að standa við beiðni Alþjóða Rauða krossins. Þau eru: Icepharma, Logaland, Skátabúðin, Pharlogis, Plastprent, Ískraftur, Kælitækni, DIS, Districa, Vistor og Raförnin og fyrirtæki sem gáfu afslátt eða vörur á kostnaðarverði eru Útilíf, Donna ehf, Office One, Everest, Sigurplast, Þór hf. Dynjandi og Marás.