Veröldin okkar – mömmueldhús opnar á Akranesi

26. okt. 2010

Akranesdeild Rauða krossins stendur að verkefninu Veröldin okkar- mömmueldhús, sem opnaði formlega með alþjóðlegri matstofu þann 15. október. Mömmueldhúsið er virkniúrræði fyrir atvinnulausar konur af erlendum uppruna og reiknað er með að um þrjátíu konur taki þátt í því. Markmiðið er að bjóða upp á heimilsmat frá öllum heimshornum – eins og mæður kvennanna, og mæður þeirra á undan þeim elduðu fyrir fjölskylduna.

Verkefnið, sem er styrkt af Atvinnuþróunarsjóði kvenna og Evrópuári gegn fátækt og einangrun, er sett upp sem átta mánaða tilraunaverkefni til þess að mæta því atvinnuleysi og þeim erfiðleikum sem markhópurinn glímir við nú um stundir. Gert er ráð fyrir því að endurskoða þörfina í árslok 2010 og stefnt að því að búa til alvöru viðskiptatækifæri ef áhugi er fyrir því að reynslutíma loknum.

Verkefnið er unnið af Jafnréttishúsi í samvinnu við Rauða krossinn á Akranesi og fleiri í nærsamfélaginu. Skipuð hefur verið hússtjórn sem er sameiginleg með Rauða kross húsinu á Akranesi, Endurhæfingarhúsinu Hver, Skagastöðum og Mömmueldhúsinu. Með því móti næst betri nýting á aðstöðu og mannskap en ella auk þess sem félagsleg virkni þeirra sem sækja hvern stað fyrir sig verður meiri.

Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun á Vesturlandi voru 12% þeirra 380 innflytjenda sem á Akranesi bjuggu án atvinnu í mars. Þetta er næstum helmingi hærri prósentutala en landsmeðaltal yfir atvinnuleysi. Af þeim 45 erlendu íbúum sem voru á atvinnuleysisskrá í mars voru 19 konur, en þá ber að líta til þess að erlendar konur í bænum eru færri en karlmenn. Hlutfall atvinnuleysis er því hærra í hópi kvenna en karla. Þar fyrir utan er fjöldi erlenda kvenna sem ekki hefur vinnu en er ekki á skrá hjá Vinnumálastofnun þar sem þær eiga engan bótarétt.

Akranesdeild hefur orðið áskynja í starfi sínu með innflytjendum að efnahagsleg og félagsleg staða þeirra erlendu kvenna sem ekki eru á vinnumarkaði er mjög slæm. Tengslanet þeirra er lítið og veikbyggt og þegar ekki er um samskipti í gegnum vinnustað að ræða hættir þeim til að einangrast. Slæm efnahagsleg staða kemur í veg fyrir að þær taki þátt í félagslífi utan heimilis. Það hefur svo aftur tilhneigingu til þess að koma illa niður á börnum þessara kvenna. Vinnumálastofnun hefur lagt á það áherslu að virkja atvinnuleytendur til góðra verka. Sá hópur sem hér um ræðir er mjög viðkvæmur þar sem íslenskukunnátta er takmörkuð og bjargir til þess að læra málið litlar.

Óhætt er að segja að verkefnið fari vel af stað og mikið rennerí er í mömmueldhúsið.