Byggja sig upp á Skagastöðum

Gísla Einarsson Rúv

23. nóv. 2010

Vinnan göfgar manninn, segir máltækið, og í hugum flestra er vinna meira en bara leið til að ná í tekjur enda maðurinn ekki hannaður fyrir langvarandi aðgerðarleysi. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að hafa atvinnu og á krepputímum getur það jafnvel kallast forréttindi. Síðustu misserin hefur atvinnuleysi aukist gríðarlega á Íslandi. Það er flestum mikið áfall að missa vinnuna og margir þurfa hjálp til að takast á við nýjar aðstæður. Á Akranesi hefur ýmislegt verið gert til að hjálpa atvinnulausum til að búa sig undir að herja á vinnumarkaðinn að nýju. Skagastaðir voru heimsóttir í Landanum á sunnudagskvöldið.

Skagastaðir eru samstarfsverkefni, Vinnumálastofnunar, Akranesdeildar Rauða krossins og Akraneskaupstaðar. Fleiri úrræði eru í boði á Akranesi, svo sem endurhæfingarhúsið Hver og einnig er mikið samstarf milli Skagastaða og FabLab  á Akranesi, sem er stafræn smiðja þar sem eru tækifæri til nýsköpunar og þróunarvinnu.

Um tvo hundruð manns á aldrinum 16 til 36 ára hafa nýtt sér Skagastaði en þess má geta að fólk hefur ekki val. Atvinnulausir á þessum aldri þurfa að vera þar að lágmarki átta tíma á viku til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Engu að síður hefur þessu verið vel tekið.

Hér má sjá þáttinn