Borgarfjarðardeild opnar glæsilega verslun

23. feb. 2011

Það var mikið um að vera hjá Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands þann ellefta febrúar, því auk þess sem deildin tók þátt í 112 deginum með lögreglu, slökkviliði, sjúkraflutningamönnum og björgunarsveit opnaði deildin glæsilega verslun sem er til húsa að Borgarbraut 61. (á móti Hyrnunni).

Þrátt fyrir að veðurguðirnir væru ekki í hátíðarskapi létu Borgnesingar það ekki stoppa sig í að koma við, þiggja veitingar í tilefni dagsins, versla ódýrt og styrkja í leiðinni gott málefni en ágóði af rekstri verslunarinnar fer í hjálparstarf Rauða kross Íslands. Auk þess að bjóða upp á notaðan fatnað hefur verslunin til sölu skartgripi sem ungliðar deildarinnar framleiða af miklum myndarskap og gefa til verslunarinnar.

Búðin verður opin fimmtudaga og föstudaga frá kl.12.00-18.00 og laugardaga frá kl. 12.00-16.00

Unglingastarf er með miklum blóma og hér má meðal annars sjá afraksturinn af því starfi en skartgripirnir eru til sölu í verslun deildarinnar og ágóði af sölunni rennur til hjálpastarfs Rauða krossins.

Verslunin í Borgarnesi er tíunda verslunin sem Rauði krossinn rekur. Sjá nánar á heimasíðunni með því að smella hér.