Vorferð Félagsvina kvenna af erlendum uppruna

17. maí 2011

Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna gerðu sér glaðan dag þann 15. maí og fóru í ferðalag upp á Akranes. Þar tók á móti hópnum fríður flokkur sjálfboðaliða Akranesdeildar. Tilefnið var að fagna vorinu og njóta þess að eiga góða stund saman.

Það var um 35 manna hópur kvenna og barna sem lagði af stað og álíka stór hópur sem tók á móti Félagsvinunum á Akranesi. Farið var á safnasvæðið en þar var boði°ð upp á ratleik, sem fólk tók misalvarlega. Einnig nutu þær þess að borða saman í fallegu húsi sem heitir Stúkuhús og byggt var í upphafi 20. aldar. Að því loknu var farið í leiki þar sem keppnisskapið sagði til sín, þá skipti engu máli hvort fólk var 7 eða 57 allir náðu að skemmta sér vel og lifa sig inn í leikina. Hægt er að sjá myndir á facebook síðu verkefnisins.

Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna er verkefni þar sem konur eru paraðar saman, önnur af erlendum uppruna og hin af íslenskum uppruna. Konurnar deila reynslu og fræðast um ólíka menningu, einnig aðstoðar sú íslenska þá erlendu við að aðlagast íslensku samfélagi. Sjá nánar um verkefnið hér.

Það var sérlega gaman að heimsækja Akranesdeild Rauða kross Íslands og sjá það blómlega starf sem þar er unnið. Sjálfboðaliðarnir voru með bros á vör og óhætt að segja að gleðin skein úr hverju andliti. Við hjá Reykjarvíkurdeild þökkum kærlega fyrir okkur.