Sumarbúðir fyrir fatlaða - laust pláss í Stykkishólmi!

7. jún. 2011

Sumarbúðir fyrir fatlaða einstaklinga, 16 ára og eldri, verða haldnar í Stykkishólmi og Löngumýri í Skagafirði í sumar eins og undanfarin ár. Vegna forfalla er enn pláss fyrir tvo á sumarbúðirnar í Stykkishólmi dagana 27. júní til 4. júlí.

Dagskrá sumarbúðanna er fjölbreytt og sniðin að því að allir geti tekið þátt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Farið er í sund og kvöldvaka haldin hvert kvöld með þátttöku sumarbúðagesta.

Gjald fyrir þátttöku vikuna í Stykkishólmi er 44.000 krónur. Þeir sem áhuga hafa geta fyllt út umsóknareyðublað á vefnum með því að smella hér.

Nánari upplýsingar gefur Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi á netfangið gudnybj@redcross.is og í síma 465 2428.