Skagastaðir fá viðurkenningu á Frumkvöðladegi Vesturlands

23. jún. 2011

Skagastaðir, virknisetur fyrir unga atvinnuleitendur á Akranesi, var útnefnt í 2.-3 sæti sem Frumkvöðull Vesturlands 2010, á Frumkvöðladeginum þann 10. júní, og fengu í sinn hlut 250.000 krónur. Það eru samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Vaxtarsamningur Vesturlands sem standa árlega fyrir slíkum útnefningum.

Í mars 2010 voru Skagastaðir settir á laggirnar en tóku formlega til starfa í apríl sama ár. Þetta er samstarfsverkefni Akranesdeildar Rauða krossins, Vinnumálastofnunar Vesturlands og fjölskyldusviðs Akraneskaupstaðar. Markhópurinn eru einstaklingar á aldrinum 16-30 ára. Verkefnið fór í gang í kjölfar átaksverkefnis sem Félags- og tryggingamálaráðuneytið hóf í ársbyrjun 2010 undir nafninu „Ungt fólk til athafna“. Verkefnið felst í því að virkja og hvetja atvinnuleitendur til ýmissa verkefna.

Skagastaðir eru opnir alla virka daga milli kl. 9-15. Allir sem sækja Skagastaði ber skylda að skila inn a.m.k. 8 klukkustundum í virkni í hverri viku. Af þessum 8 klst þurfa þau að velja sér hóp þar sem þau skila 4 tímum í.

Frá upphafi hafa rúmlega 200 einstaklingar tekið þátt í verkefninu Skagastaðir. Í dag eru um 70 einstaklingar  frá Vinnumálastofnun sem hafa viðveruskyldu og einnig eru einstaklingar frá fjölskyldusviði Akraneskaupstaðar.  Hugmyndafræðin er sú að starfsemin þróist með þeim einstaklingum sem sækja Skagastaði hverju sinni. Allir sem koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti hittast 1x í mánuði þar sem farið er yfir stöðu mála, þá er átt við aðilar frá Vinnumálastofnun, fjölskyldusviði Akraneskaupstaðar og Akranesdeild Rauða krossins ásamt verkefnisstjórum Skagastaða. Þetta samstarf og það góða tengslanet sem hefur náðst er undirstaða þess að Skagastaðir hafa gengið svona vel. 

Hugmyndafræðin hefur vakið athygli víðsvegar á landinu enda á þetta sér engan sinn líka og hefur verið tekið á móti mörgum hópum alls staðar að sem hafa viljað kynna sér þetta og koma sambærilegu verkefni af stað hjá sér.

Alls fengu 12 aðilar viðurkenningu á Frumkvöðladeginum. Að þessu sinni voru það Brúðuheimar sem voru útnefndir Frumkvöðull Vesturlands 2010 og fengu þau verðlaunagrip ásamt 500.000 kr. Í 2.-3. sæti ásamt Skagastöðum var Dögg Mósesdóttir sem hefur staðið fyrir alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni Northern Wave Film Festival í Grundarfirði.