Sumarbúðir starfræktar í Stykkishólmi í sjötta sinn

Kristján S. Bjarnason blaðamannn á Skessuhorni

18. júl. 2011

Sumarbúðir fyrir fatlaða voru starfræktar í Stykkishólmi dagana 27. júní – 4. júlí síðastliðinn í Grunnskóla Stykkishólms. Sumarbúðirnar hafa verið starfræktar í vikutíma á hverju sumri síðan árið 2005 í samstarfi við Sumarbúðir á Löngumýri í Skagafirði en starfsemin er skipulögð af Svæðisráði Rauða kross deilda á Norðurlandi. Þátttakendur koma allsstaðar að af landinu og komast jafnan færri að en vilja. Gunnar Svanlaugsson skólastjóri veitti sumarbúðunum forstöðu. Sex starfsmenn komu að rekstrinum en ellefu einstaklingar sóttu sumarbúðirnar þetta árið.

Dagskráin var einstaklega glæsileg og fjölbreytt. Meðal annars var farið í siglingu um Breiðafjörð, farið í hestaferð, veiðiferð, Sögumiðstöðin í Grundarfirði heimsótt auk fjölbreyttra afþreyingarmöguleika sem boðið var upp á í Stykkishólmi. Þá fengu þátttakendur fræðslu í skyndihjálp og daglegri umhirðu líkamans.

„Markmiðið er að sýna þeim allt það besta sem okkar svæði hefur upp á að bjóða. Við leitumst við að hafa sem fjölbreyttasta dagskrá en dagskrárliðir eru sniðnir að getu þeirra sem dvelja hjá okkur en hún getur verið mismunandi frá sumri til sumars. Starfsemin nýtur mikils velvilja af hálfu bæjarfélagsins en Stykkishólmsbær leggur okkur til aðstöðu í grunnskólanum auk óhefts aðgengis að þeirri aðstöðu sem okkur nýtist við starfsemina, svo sem aðgengi að sundlauginni og allri íþrótta- og tómstundaaðstöðu sem starfrækt er á vegum bæjarins. Vikan sem sumarbúðirnar eru starfræktar er eitthvað sem starfsfólkið lifir fyrir, við vitum fátt meira gefandi en að starfa með þeim einstaklingum sem sækja okkur heim þann vikutíma sem sumarbúðirnar eru starfandi, flestir sem til okkar koma, eru frá sambýlum víðs vegar að af landinu og fara héðan undantekningarlaust með bros á vör og ósk um að fá að koma aftur næsta sumar,” segir Gunnar aðspurður um gengi og viðtökur sumarbúðanna.

Greinin birtist í Skessuhorni þann 12.07.2011