Rauði krossinn kennir starfsfólki skóla að bregðast við slysum á börnum

Þóri Guðmundsson

17. ágú. 2005

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra var viðstödd athöfn sem haldin var að námskeiðinu loknu.

Hvert íslenskt barn slasast að meðaltali einu sinni á ári og í dag hóf Rauði kross Íslands skipulagða skyndihjálparkennslu fyrir starfsfólk skóla, þannig að það geti brugðist hratt og vel við slysum sem verða á börnum. Kennsluátakið hefst með námskeiði í skyndihjálp og sálrænum stuðningi fyrir starfsmenn Grundaskóla.

Helsta markmið Rauða krossins með námskeiðunum er að starfsmenn skóla geti veitt börnum skyndihjálp og sálrænan stuðning þegar á reynir. Þannig má meðal annars koma í veg fyrir að slys hafi alvarlegri afleiðingar en ella.

Rauði kross Íslands hefur við uppbyggingu og undirbúning þessa námskeiðs haft formlegt samstarf við Grundaskóla á Akranesi og fyrsta námskeiðið sem kennt er fer fram þar í dag. Að loknu námskeiðinu, kl. 16:30, verður athöfn sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra verður viðstödd.

Með þessu sérhæfða námskeiði Rauða krossins er skólum í fyrsta sinn boðið upp á námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi sem sniðið er að þörfum starfsmanna skóla. Einnig er farið yfir grundvallaratriði sálræns stuðnings í kjölfar áfalls, en alþjóðlegar kannanir sýna að 35 prósent barna sem verða fyrir einhvers konar áföllum þjást í kjölfarið af áfallastreituröskun.

Í könnun sem var gerð árið 2003 kom í ljós að 30 prósent skóla höfðu haldið skyndihjálparnámskeið fyrir sína starfsmenn á síðastliðnum tveimur árum. Enn færri, eða 25 prósent, höfðu haldið námskeið í sálrænum stuðningi á sama tíma.

Leiðbeinendur á námskeiðunum verða Rauða kross leiðbeinendur í skyndihjálp og sálrænum stuðningi, sem hafa hlotið til þess sérstaka þjálfun. Rauði krossinn vottar þátttöku starfsmanna skóla á námskeiðinu og veitir þeim skólum sem halda það sérstaka viðurkenningu.

Hér er hægt að sjá myndasýningu af námskeiðinu. Myndirnar tók Elís Þór Sigurðsson og Borghildur Jónsdóttir. Með því að smella á myndina opnast hún í stærri útgáfu.