Vellukkað landsmót athvarfa fyrir geðfatlaða

Sólrúnu Ingibergsdóttur

26. sep. 2005

Ánægjan skín úr hverju andliti þátttakenda.
Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sameiginlegt landsmót 14.-16. september að Laugum í Sælingdal (eða „Sæludal“ eins og ánægður mótsgestur kallaði staðinn að afloknu móti). Gestir og starfsfólk athvarfanna Dvöl, Vin og Laut mættu til leiks en fulltrúar frá athvarfinu Læk í Hafnarfirði áttu því miður ekki heimangengt að þessu sinni.

Lagt var af stað vestur í Dali 14. september og hittust mótsgestir hressir á Laugum, gæddu sér á góðum veitingum, fengu sér sundsprett og sungu og trölluðu fram á kvöld.

Daginn eftir var mótsgestum ekið árla morguns í Búðardal þar sem fulltrúi Búðardalsdeildar Rauða krossins, Jóhann Sæmundsson, hitti hópinn klæddur sem ekta víkingur frá söguslóðunum sem hann síðan lóðsaði hópinn um. Ekið var með hópinn í Haukadal og víkingabærinn Eiríksstaðir skoðaður. Því næst var farið um Suðurdali, Laxárdal og loks var kirkjan í Hjarðarholti skoðuð. Rauðakrossfólk bauð svo upp á dýrindis máltíð í Dalakjöri í Búðardal við mikla ánægju ferðalanga. Síðan var hópnum skilað inn að Laugum þar sem fólk skemmti sér langt fram á nótt við leiki, söng og dans.

Daginn eftir hélt hver til síns heima og voru allir sammála um að mótið í ár hefði verið einstaklega vellukkað og ætti Rauðakrossdeildin í Dölunum miklar þakkir skilið fyrir höfðinglegar móttökur.

Markmiðið með rekstri athvarfa fyrir geðfatlaða er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Fjölbreytt dagskrá er í boði í athvörfunum þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki í rekstri athvarfanna og veita gestunum félagsskap. Sjálfboðaliðar í Dvöl í Kópavogi sjá meðal annars um að hafa athvarfið opið á laugardögum.