• IMG_4605

Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu hefur í ýmsu að snúast

8. júl. 2014

Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu starfar að Bjarkargötu 11 á Patreksfirði. Starfssvæði deildarinnar nær yfir alla suðurfirði Vestfjarða eða Patreksfjörð, Tálknafjörð, Bíldudal og sveitirnar í kring. Stjórnarfundir eru fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann en sumarfrí er í júlí og ágúst.

Aðalverkefni deildarinnar eru neyðarvarnir og rekstur fjöldahjálparstöðva á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, skyndihjálparnámskeið og námskeiðið „Börn og umhverfi“. Þá er deildin virk í „Föt sem framlag“ sem er ungbarnafataverkefni sem margir í þorpunum leggja lið og prjóna og sauma í. Einnig eru útbúnir fatapakkar fyrir 2 – 12 ára sem fara til Hvíta-Rússlands eða þangað sem óskað er eftir aðstoð. Öflug fatasöfnun er í gangi og er fatagámur við húsnæði deildarinnar og einnig á Tálknafirði en aðrir koma með fötin í söfnunina á Patreksfirði.

Verkefnið Heimsóknavinir byrjaði á vormánuðum 2014 í samvinnu við félagsþjónustu Vesturbyggðar. Augljós þörf er fyrir það.

„Tölum saman“ er verkefni sem felst í því að nýbúar sem hafa lært íslensku koma saman ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins og tala saman og þjálfast í íslenskunni. Þetta hjálpar þeim að komist betur inn í samfélagið og skilja hvað er í gangi. Þar er tekið fyrir hvernig kosningarnar virka, sjómannadagurinn á Patreksfirði (sem er rómaður), heimildamyndahátíðin „Skjaldborg“ um hvítasunnuhelgina og málfræði, setningamyndun, orðaforði og allt mögulegt sem upp kemur. Þetta verkefni er einnig í samvinnu við félagsþjónustu Vesturbyggðar.

Tombólubörn eru mjög virk á svæðinu og eru dugleg að safna fé til aðstoðar bágstöddum. Þá eru mjög margir aðrir sem leggja deildinni lið að öðru leyti eins og að prjóna, sauma, „Ganga til góðs“, leggja til föt og svo mætti lengi telja.

Sjúkrabílar Heilsugæslunnar á Patreksfirði hafa aðstöðu í húsnæði deildarinnar en heilsugæslan leigir eitt bil í húsnæðinu. Húsnæðið er einnig nýtt fyrir fatasöfnunina, stjórnarfundi og marga aðra starfsemi deildarinnar.