Heimsókn frá gambíska Rauða krossinum

6. okt. 2006

Þann 27. september fengu Rauða kross deildir á Vesturlandi góðan gest, Momodou Jahateh, sem er gjaldkeri gambíska Rauða krossins. Rauða koss deild í Gambíu hefur verið vinadeild Rauða kross deilda á Vesturlandi undanfarin ár.

Fulltrúar deildanna fóru með Mr. Jahathe í skoðunarferð um Borgarfjörð, meðal annars að Hraunfossum og Deildartunguhver. Að skoðunarferð lokinni var farið að Hótel Hamri í kvöldverð.

Björn Benediktsson úr Stykkishólmi og Kristín Einarsdóttir úr Borgarnesi voru meðal þeirra sem tóku á móti Mr. Jahateh, en þau voru í hópi Rauða kross fólks af Vesturlandi sem heimsótti Gambíu síðastliðið vor.

Momodou Jahateh færði Rauða kross fólki á Vesturlandi bestu þakkir fyrir samstarfið og þann stuðning sem deildirnar hafa veitt á undanförnum árum. Björn Benediktsson, sem er formaður svæðisráðs Rauða krossins á Vesturlandi, þakkaði honum fyrir komuna og lét í ljós þá ósk að samstarfið við Vestursýslu héldi áfram á farsælli braut.

Rauða kross deildir á Vesturlandi hafa verið í vinadeildasamstarfi við Rauða kross deildina í Vestursýslu (Western Division) í Gambíu síðan 1996. Fyrstu árin styrktu deildirnar hér heima vinadeildina með því að senda þangað notaðan fatnað sem dreift var til þurfandi en hluti hans var einnig seldur á markaði til fjáröflunar.

Á þessu ári var ákveðið að veita beinan fjárstuðning til nokkurra verkefna deildarinnar í Vestursýslu. Styrkurinn verður nýttur til að gera á endurbætur á húsnæði deildarinnar sem löngu eru orðnar tímabærar og til að efla þá þjálfun sem veitt er sjálfboðaliðum. Starfsemi Rauða krossins í Gambíu byggist á starfi sjálfboðaliða sem m.a. fræða almenning um skyndihjálp og hreinlæti og þeir sjá um að veita neyðaraðstoð þegar verða hamfarir.