Unnið gegn fordómum í Akranesbæ

13. nóv. 2006

Síðustu misserin hefur hópur öryrkja komið saman vikulega í húsi Akranesdeildar Rauða kross Íslands. Í bígerð er að skipuleggja ýmis verkefni undir kjörorðinu „Byggjum betra samfélag.“ Þetta eru sjálfboðaliðar sem hafa valið sér það hlutverk að beita sér gegn hvers kyns fordómum og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að allir íbúar í þessum annars ágæta bæ fái að njóta sín á eigin forsendum.

Á Akranesi býr fjölbreytt flóra fólks og til þess að öllum líði vel þarf að stuðla að gagnkvæmri virðingu manna og kvenna á milli.

Þann 9. nóvember stóð hópurinn fyrir umfangsmiklu verkefni sem þau kalla „Gegn fordómum“ og fólst í því að heimsækja stofnanir og verslanir á Akranesi og bjóða fólki að þrykkja handarfar sitt á dúk og taka þannig táknræna afstöðu gegn fordómum. Þetta var liður í Vökudögum, menningarhátíð á Akranesi, sem haldin er í nóvember ár hvert.

Hópurinn var á ferð um Akranes með dúkinn svo sem flestum gæfist kostur á að taka þátt og fór meðal annars í grunn- og framhaldsskóla Akraness, sjúkrahús, verslanir og endaði svo verkefnið í Bæjarþingsalnum þar sem bæjarstjórn og starfsfólki Akraneskaupstaðar gafst kostur á að þrykkja handarfar sitt á dúkinn.

Hópnum var alls staðar vel tekið og þátttaka bæjarbúa framar vonum en yfir 600 handarför prýða nú dúkinn góða.