Ungir og upprennandi sjálfboðaliðar á Akranesi

29. nóv. 2006

Akranesdeild Rauða kross Íslands fékk skemmtilega heimsókn þann 29. nóvember frá hópi vaskra barna á leikskólanum Teigaseli. Börnin á elstu deildunum, Háteigi og Miðteigi, hafa síðustu daga föndrað ýmsa hluti fyrir Rauða krossinn sem þau svo komu með og gáfu deildinni í tilefni af komu jólanna.

Krakkarnir létu ekki þar við sitja heldur tóku að sér að skreyta húsið hátt og lágt og þökkum við þeim kærlega fyrir. Þegar búið var að skreyta áttu krakkarnir notalega stund í Rauða krosshúsinu, fengu kakó og piparkökur og sungu „Bráðum koma blessuð jólin” fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Akranesdeildarinnar sem staddir voru í húsinu.

Akranesdeildin stendur fyrir fjölbreyttum jólaverkefnum á aðventunni. Sjálfboðaliðar úr félagsmiðstöðinni Arnardal munu sjá um móttöku á jólagjöfum handa bágstöddum börnum sem dreift verður á Akranesi í samvinnu við Fjölskyldusvið Akraneskaupstaðar og bæjarbúum verður boðið í jólakortaföndur og afraksturinn sendur sjúkum og einmana með kveðju frá sjálfboðaliðum Rauða krossins.

Þá verður Skagamönnum boðið á alþjóðlegt jólahlaðborð og Akurnesingar af erlendum uppruna eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Á næstu dögum er von á börnum í leikskólanum Vallarseli sem ætla einnig að leggja til skraut sem þau hafa föndrað og börn á miðstigi í Grundaskóla ætla að föndra skraut á jólatréð sem BYKO gaf deildinni. Það mun því ríkja sannkölluð jólastemning í Rauða kross húsinu á Akranesi alla aðventuna.