Gestir frá Gambíu í heimsókn

27. apr. 2007

Þrír góðir gestur frá Gambíu eru nú í heimsókn hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Á sumardaginn fyrsta komu sjálfboðaliðar frá Rauða krossi Gambíu, þeir Ebou Sarr og Mby BIttaye, til Íslands ásamt starfsmanni landsskrifstofunnar, Katim Nget. Munu þeir dvelja á landinu til 22. maí næstkomandi og starfa með Reykjavíkurdeild Rauða krossins í fjölmörgum verkefnum hennar.

Reykjavíkurdeildin er í vinadeildasamastarfi við tvær deildir innan Gambíska Rauða krossins. Þáttur í samstarfinu eru ungmennaskipti þar sem tveir íslenskir sjálfboðaliðar fara árlega til Gambíu í 6-12 vikur og tveir gambískir sjálfboðaliðar koma hingað til lands.

Sjálfboðaliðarnir taka þátt í og kynna sér ýmis verkefni Rauða krossins og eru með kynningar á sínum verkefnum, landi og þjóð. Þeir heimsóttu Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit og fluttu erindi um sögu Gambíu, aðstæður í landinu og öflugt starf félagsins á þeirra heimaslóðum. Heimsóknin vakti mikla lukku og fjörugar umræður spunnust í kjölfarið á kynningu þeirra félaga og mun þeir innan tíðar gera sér aðra ferð á Vesturland og heimsækja nemendur í grunnskólanum á Akranesi.

Stjórnarfólk deilda á Vesturlandi bauð gestunum í mat þar sem gafst tækifæri til að spjalla saman um sameiginleg verkefni og samstarf Rauða kross fólks um veröld víða.  
 
Eftir ferðina um Vesturland fór Katim til Vestfjarða og heimsótti deildirnar þar. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast starfi deildanna og gefa góð ráð um öflun sjálfboðaliða og uppbyggingu ungmennastarfs en Rauði krossinn í Gambíu er með öflugt ungmennastarf í sínu landsfélagi.

Rauða kross deildir á Vesturlandi hafa um árabil átt í vinadeildarsamstarfi við deild í Western Division í Gambíu og deildir á Vestfjörðum eru að hefja vinadeildarsamstarf  við deild í North Bank Division.

Dagskrá gestanna þennan tíma verður áfram þétt en hún er mikið í höndum sjálfboðaliða Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar.