Fjölþjóðlegt kaffihús í Snæfellsbæ

Guðna Gunnarsson stjórnarmann Snæfellsbæjardeildar Rauða kross Íslands

15. maí 2007

Snæfellsbæjardeild Rauða kross Íslands stendur fyrir fjölþjóðlegu kaffihúsi miðvikudaginn 16. maí á Gilinu í Ólafsvík. Þetta er tilraunaverkefni í anda þeirrar stefnu Rauða krossins að aðstoða útlendinga við að nálgast upplýsingar um rétt sinn og skyldur í íslensku samfélagi. 

Ef undirtektir verða þokkalegar er meiningin að fjölþjóðakaffihúsið verði fastur liður í kaffihúsamenningu Snæfellsbæjar. Til að miðla upplýsingum um samfélag og samtíma verður farið yfir helstu viðburði og fréttir fjölmiðla og síðar stendur til að boða sérstaka gesti til kaffihússins sem sætu fyrir svörum eða miðluðu fróðleik sem varðað gæti málefni útlendinga. 

Gestir kaffihússins munu sjálfir taka þátt í að móta dagskrána og þannig leita eftir svörum eða óska eftir umræðuefni komandi kaffihúsakvölda. Íslenska yrði fyrsta tungumál kaffihússins en til að yfirstíga samskiptahindranir verður reynt að kalla til lykilfólk sem talar íslensku auk einhvers af þeim tungumálum sem töluð eru í Snæfellsbæ. 

Eins og íslenskt samfélag í heild þá hefur Snæfellsbær notið góðs af því að útlendingar hafa komið hér til starfa og sest hér að. Nokkuð vantar samt upp á að allir aðlagist samfélaginu og taki þátt í leik og starfi utan vinnu. Af hverju eru fá pólsk börn í íþróttum eða tónlistarskóla? Af hverju er ekki bosnískur slökkviliðsmaður?  Geta konur frá Asíu ekki gengið í kvenfélag? Við þurfum að leita svara við þessum spurningum og opna og kynna okkar samfélag fyrir nýju fólki.

Börn innflytjenda aðlagast oft betur en fullorðnir. Þau eru fljótari að læra tungumálið en lenda því miður oft í hlutverki Sölku Völku og verða málssvarar sinnar fjölskyldu. Það er sætt en ekki rétt að leggja á ungar herðar. Íslenskunámskeið eru góð en íslenska án æfingar, ögrunar og notkunar nýtist ekki og gleymist fljótt. Það er von mín að fjölþjóðakaffihús verði vel sótt. Ekki eingöngu af nýbúum heldur líka þeim sem hafa verið hér lengur og geta miðlað af reynslu sinni. Íslendingar sem hafa áhuga á þessu málefni eru að sjálfsögðu velkomnir.