Að vinna með innflytjendum

23. maí 2007

Í síðustu viku skipulagði Rauði krossinn á Akranesi námskeiðið Að vinna með innflytjendum fyrir starfsmenn stofnana í bænum. Um samvinnuverkefni Akranesdeildarinnar og Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi var að ræða.

Námskeiðið var ætlað öllum þeim sem vinna með eða hafa starfs síns vegna samskipti við fólk af erlendum uppruna. Fjallað var um málefni innflytjenda, tölulegar upplýsingar, réttindi og skyldur og stöðu innflytjenda almennt hérlendis. Enn fremur var fjallað um fordóma, menningarlæsi, íslenskukennslu o.fl. sem mikilvægt er að hafa í huga þegar unnið er með innflytjendum. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Guðrún Vala Elísdóttir, mannfræðingur og náms- og starfsráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi.

Í seinni hluta námskeiðsins fjallaði Sabine Leskopf, verkefnastjóri túlka- og þýðingaþjónustu í Alþjóðahúsi, um notkun túlka við ýmsar aðstæður.

Námskeiðið var vel sótt og þátttakendur sammála um gagnsemi þess.