Að gefa með hjartanu - Stiklað á stóru í þrjátíu og fimm ára sögu sjúkravina á Akranesi

31. okt. 2011

Akranesdeild Rauða kross Íslands stendur á tímamótum þetta haustið en um þessar mundir eru liðin 70 ár frá stofnun deildarinnar. Þann 24 otkóber næstkomandi eru einnig merk tímamót meðal ákveðins hóps sjálfboðaliðanna sem í dag er jafnan talað um sem heimsóknavini. Starf heimsóknavinanna hefur frá upphafi verið einn af burðarstólpum starfsins hjá Akranesdeildinni, en eitt af stóru verkefnum Rauða krossins á Íslandi er að rjúfa félagslega einangrun þeirra sem berskjaldaðir eru í þjóðfélaginu. Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan, nánar tiltekið þann 24. október árið 1976 var haldinn stofnfundur sjúkravinadeildar Akranesdeildar Rauða krossins.

Málefni aldraðra efst á baugi
Seinna sama dag hittist nýkosin stjórn á sínum fyrsta stjórnarfundi en stjórnin var skipuð eftirfarandi; Þóru Einarsdóttur, Margréti Ármannsdóttur, Elínu Hannesdóttur, Sigríði Einarsdóttur, Arnóru Oddsdóttur og Ingu Jónu Þórðardóttur.

Í fyrstu fundargerð stjórnar sjúkravinadeildarinnar segir meðal annars að rædd hafi verið málefni aldraðra og starfsemi elliheimilisins þar sem samþykkt var að fela formanni og varaformanni að leita samstarfs við bæjarstjórn um rekstur elliheimilisins meðal annars með tilliti til þess að breyta því í hjúkrunarheimili. Þá var ritara falið að koma upp spjaldskrá yfir sjúkravini sem skildi liggja frammi á sjúkrahúsinu og elliheimilinu. Að lokum var samþykkt að gefa fólki færi á að skrá sig sem stofnfélaga til ársloka 1976.

Mikið breyst á langri starfsævi
Í dag, þrjátíu og fimm árum eftir stofnfundinn hefur starfsemi þess sem einu sinni voru sjúkravinir og eru í dag heimsóknavinir mikið breyst og þróast í takt við þarfir samfélagsins. Einn hornsteina í starfi Rauða kross hreyfingarinnar er að Rauði krossinn bregst við þeirri neyð sem steðjar að hverju sinni. Það kallar á að starfsemin sé í stöðugri endurskoðun og mótuð að þeim þörfum sem samfélag okkar kallar á. Margir hafa komið og margir hafa farið í þrjátíu og fimm ára sögu heimsóknavina og tölu þeirra sem hafa lagt hönd á plóg á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun veit ég ekki. Þau rúmu þrjú ár sem ég gegndi starfi svæðisfulltrúa Rauða krossins á Vesturlandi átti ég þess kost að kynnast aðeins nokkrum af þeim sem hafa að starfinu komið, þar af fimm merkiskonum sem hafa verið virkar í starfi heimsóknavina frá byrjun en það eru þær; Sesselja Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Sveinsína Andrea Árnadóttir, Jóna Sigurðardóttir og Sigurbjörg Jónsdótir.

Margar hendur komið að starfinu
Þær eru fleiri en ég hef tölu á, stundirnar sem hafa verið lagðar til í þágu þeirra sem búa við bág kjör og félagslega einangrun, þar sem launin eru engin önnur en bros og vitneskjan um, þegar lagst er á koddann að kvöldi dags, að hafa gefið af sjálfum sér til einhvers sem þarfnast. Að gera starfinu ýtarlega skil frá 24. október árið 1976 er ógjörningur í stuttu máli en niðurgrip í fundargerðir segir meira en mörg orð um þann stórhug og fórnfýsi sem það fólk bjó yfir sem kom af stað starfi sjúkravinadeildarinnar. Í þeim sést að í ýmis horn var að líta í árdaga starfsins meðan verið var að finna starfinu farveg í verkefnavali og almennri starfsemi deildarinnar.

Stiklað á stóru
10. júlí 1977: „Rædd sú hugmynd að festa kaup á prestsetrinu til reksturs sjúkrahótels.“

16. september 1977: „Stjórnarfundur samþykki að setja á stofn súkraheimili til reynslu ef rekstrargrundvöllur er fyrir hendi.“

18. mars 1978: „Tillaga samþykkt um að lögum og reglum sjúkravinadeildar Rauða krossins á Akranesi verði breytt og deildin verði sameinuð Akranesdeild og sjúkravinir starfi undir stjórn Rauða kross deildar á Akranesi.“

25. október 1978 var boðað til fundar og var aðalfundarefnið að endurvekja starf sjúkravinadeildarinnar undir fyrri formerkjum, sem sagt að sjúkravinir störfuðu áfram á sjálfstæðum grundvelli innan Rauða kross deildarinnar á Akranesi. Í desember var ákveðið að fara fram á það við forstöðumann dvalarheimilins Höfða að sjúkravinir tækju yfir rekstur sölubúðar sem þar var rekin. Spilavistin hafði sinn fasta sess í starfsemi sjúkravina en fyrripart árs 1979 var ákveðið af stjórn Höfða að veita samþykki sitt fyrir því að þeir tækju yfir rekstur búðarinnar auk þess sem þeim var  boðið að sjá um bókasafn dvalarheimilins sem var samþykkt þann 1. mars 1979. Stefnt skyldi að því að hafa verslunina opna einu sinni í viku, en tvisvar í viku yfir hátíðarnar.

31. mars 1979: „Sjúkravinir  opnuðu verslunina á Höfða og þykir vistmönnum það mjög til bóta fyrir heimilið.“

Grunnurinn lagður á Höfða
Ásamt verslunarekstrinum sáu sjálfboðaliðar um starfrækslu bókasafnsins á dvalarheimilinu auk þess að standa fyrir spilakvöldum. Fljótlega var eftir þessu tekið og á fundi 22. október var lesin upp beiðni frá félagsmálaráði bæjarins um að bæta við sig í spilavistina á Höfða „þ.e. að ellilífeyrisþegum í bænum verði boðið að koma.“ Á sama fundi var lesin upp beiðni frá félagsmálaráði um, hvort sjúkravinir gætu tekið að sér að heimsækja gamla og sjúka úti í bæ, og ef til vill vera þeim innan handar með ýmis smáviðvik eins og að skreppa í búðina og annað í þeim dúr. Þörfin fyrir starf sjúkravina var greinilega brýn og vel tekið af þeim sem nutu góðs af.

Vatt fljótt upp á sig
Starfsemi sjúkravina var fljót að vinda upp á sig eins og sést í fundargerð aðalfundar 24.nóvember 1984. „Formaður sagði frá starfi síðastliðins árs, kom inn á spilakvöldin, bókasafnið, verslunina, jólaglaðning til 28 einstaklinga og sendingu á fötum í söfnun Hjálparstofnunnar kirkjunnar til Eþíópíu.“ Að baki svo einfaldri upptalningu liggja margar vinnustundir sem ekki er sjálfgefið að innt sé af hendi í sjálfboðavinnu. Fórnfýsi og hjartalag þeirra sem hafa í þrjátíu og fimm ára sögu lagt sitt af mörkum við að halda starfinu gangandi þarf ekki að hafa mörg orð um, þeir ófáu sem hafa notið góðs af starfsemi sjúkravina með einum eða öðrum hætti vita allt um það.

Áfanga náð
Á aðalfundi sem haldinn var 18. október árið 1986 fögnuðu sjúkravinir tíu ára starfsafmæli sínu. Á þann fund mættu fimmtán konur í hátíðarskapi og fóru yfir farinn veg og verkefni líðandi árs. Meðal annars var rætt hvenær ætti að afhenda smeltiofninn sem keyptur hafði verið og ætti að nýtast vistmönnum á Höfða og eldri borgurum bæjarins á leirgerðarnámskeiðum sem þar voru haldin, rekstur bókasafnsins gengi vel og væri vel nýtt af vistmönnum, ákveðið var að panta kökur frá bakara og selja í versluninni í desember. „Vistfólk á Höfða hefur verið ánægt með að fá jólakökurnar á þennan hátt.“

Í föstum skorðum til 1998
Starfsemi sjúkravina hélst nokkuð óbreytt í rúm tuttugu ár. Í fundargerð frá aðalfundi 12. maí 1998 er hins vegar sagt frá því að vegna óska frá stjórn Höfða um fleiri opnunardaga og aukningu á umfangi starfsins sé rétt að skoða þá hugmynd að láta Höfða taka yfir rekstur verslunarinnar. Á fundi höldnum 28. semptember árið 1998 var svo samþykkt samhljóða af 17 konum að Höfði tæki við rekstri verslunarinnar.

Tímarnir breytast og .........
Þótt rekstur verslunarinnar væri kominn á annarra hendur hélt annað starf sjúkravina áfram, á Höfða sem og annars staðar þar sem þeirra var þörf. Aðstæður í þjóðfélaginu breytast og starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa vakandi auga með því hvar kreppir að og hvar þeirra starfskrafta er þörf. Í fundargerð frá 14. september árið 2000 var heimsóknaþjónusta komin á verkefnaskrá sjúkravina og sagði fyrsti heimsóknavinurinn þar frá reynslu sinni af því að vera heimsóknavinur. „Lét hún mjög vel af sinni reynslu og sagðist ekki hafa minni ánægju af samverunni en skjólstæðingur sinn.“

Sígandi lukka er best
Í því frumkvöðlastarfi sem unnið var meðan verið var að festa starfsemi heimsóknavina í sessi má sjá í fundargerðum frá fyrstu árum starfsins að erfitt var að nálgast skjólstæðinga þar sem þjónusta af þessu tagi var nýlunda í samfélaginu. Hræðsla við fordóma og að stíga skrefið og bera sig eftir björginni, sem á þessum tíma var eitthvað nýtt og áður óþekkt, hefur sjálfsagt átt sinn þátt í því að starfið fór rólega af stað, en sígandi lukka er best og með eljusemi og dugnaði tókst að vinna verkefninu trausts og viðurkenningar í samfélaginu á Akranesi.

Í stöðugri skoðun
Uppbygging á starfsemi heimsóknavina Rauða krossins hefur verið meðal áhersluverkefna félagsins undanfarin ár. Lögð er áhersla á að undirbúa það fólk, sem vill gefa af tíma sínum til að láta gott af sér leiða, með námskeiðahaldi og fræðslu. Faglegt starf og utanumhald hefur skapað heimsóknavinum traust og verðskuldaða virðingu fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu þeirra sem búa við félagslega einangrun eða skert lífsgæði af öðrum félagslegum ástæðum.

Í fundargerð haustfundar sem haldinn var 27. ágúst árið 2009 segir meðal annars. „Borist hafa 11 umsóknir um heimsóknavini frá dvalarheimilinu Höfða og tvær frá konum sem búa úti í bæ.“ Starfsemi heimsóknavina á Akranesi, sem og annars staðar á landinu hefur sýnt að þörfin fyrir þá er víðar og brýnni nú en nokkru sinni vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Sá hópur sem býr við félagslega skert lífsgæði hefur breyst að samsetningu og stækkað undanfarin ár.

Hvað gera heimsóknavinir í dag?
„Þeir geta talað saman, hlustað, spilað, föndrað, farið saman út að ganga, í bíó, á kaffihús, farið saman út aðkeyra eða t.d. fengið hund í heimsókn til sín. Mikilvægt er að geta tekið hverjum og einum eins og hann er, fyrirkomulag heimsóknarinnar er samkomulag.

Sjálfboðaliðar sem heimsækja fara á sérstakt námskeið hjá Rauða krossi Íslands og eru bundnir þagnarskyldu. Vitneskja um persónulega hagi fer ekki lengra,“ segir meðal annars í  kynningartexta um starf heimsóknavina á heimasíðu Rauða krossins. Starfinu er fundinn farvegur á margan og mismunandi hátt en megintilgangurinn er að gefa af sjálfum sér og láta gott af sér leiða til þeirra sem berskjaldaðir eru á einhvern hátt í samfélaginu.

Ágætu heimsóknavinir
Ég vil óska ykkur til hamingju með merkan áfanga í starfi ykkar. Í þrjátíu og fimm ára sögu sjúkra- og heimsóknavina Akranesdeildar eru margir eldhugar sem lagt hafa hönd á plóg við að halda starfinu gangandi og í takti við þarfir samfélagsins. Nöfn þeirra fjölmörgu verða ef til vill rituð á spjöld annarrar sögu en of langt mál að gera þeim ýtarlega skil hér. Saga þeirra verðskuldar að gerð verði veglegri og ítarlegri skil en hægt er á þessum síðum.


Með afmæliskveðju.

Kristján S. Bjarnason
Fyrrverandi svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vesturlandi.