Brjótum múra – ráðstefna um kosti og áskoranir fjölmenningarsamfélags

4. nóv. 2011

Rauði krossinn á Akranesi og Akraneskaupstaður boða til tveggja daga ráðstefnu um forsendur, kosti og áskoranir fjölmenningarsamfélags þann 4. og 5. nóvember undir yfirskriftinni BRJÓTUM MÚRA! Ráðstefnan er liður í samnefndu verkefni Rauðakrossdeildarinnar á Akranesi, Akraneskaupstaðar, Velferðarráðuneytisins og Evrópusambandsins sem styrkt er af Progress áætlun Evrópusambandsins.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra setur ráðstefnuna föstudaginn 4. nóvember kl. 13 í Tónbergi á Akranesi. Dagskráin er birt á brjotummura.wordpress.com. Með ráðstefnunni er unnið að því að efla samræðu um verkefni fjölmenningarsamfélagsins og skapa vettvang fyrir aðila úr ólíkum áttum til þess að koma saman, hlusta hver á annan og deila reynslu sinni.

Dr. Anna Kirova, prófessor við Háskólann í Alberta í Kanada, var boðin sérstaklega til að fjalla um áskoranir í lífi fjölskyldna og barna innflytjenda og bjargir til stuðnings og er fyrirlestur hennar laugardaginn 5. nóvember. Anna Kirova, sem upphaflega kemur frá Búlgaríu, er ekki aðeins sérfræðingur í málefnum og aðlögun innflytjenda að nýju samfélagi heldur talar hún út frá eigin reynslu sem innflytjandi í Kanada á tíunda áratugnum.

Þá munu margir innflytjendur á Íslandi deila reynslu sinni þessa tvo daga ásamt fulltrúum stjórnvalda og háskólasamfélagsins. Meðal fyrirlesara eru Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur sem fjallar um þróun fjölmenningarsamfélaga í Evrópu og viðbrögð við þeim, Þorvaldur Friðriksson fréttamaður sem talar um fjölmiðlun í fjölmenningarsamfélögum, Aleksandra Chlipala sálfræðingur fjallar um sálræna fylgifiska þess að flytjast á milli menningarheima, Ahemd Taha Saddeq Imam talar um sjálfsmynd múslima í Evrópu  og Piotr Adam Mochola segir frá reynslu sinni af  því að vera nemandi af erlendum uppruna í íslenskum skóla svo nokkrir séu nefndir.

Að ráðstefnunni lokinni býðst gestum að taka þátt í Þjóðahátíð á Akranesi, árlegum viðburði sem haldinn er í tengslum við menningarhátíðina Vökudaga. Þema hátíðarinnar í ár er einmitt fjölmenning. Á síðasta ári tóku meira en 100 innflytjendur þátt í því að gera hátíðina sem veglegasta og um 1500 gestir fögnuðu fjölbreytileikanum.

Meðfylgjandi er dagskrá ráðstefnunnar:

Föstudagur 4. nóvember:
13.00 Setning og ávarp: Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra
Hlutverk stjórnvalda: Íris Björg Kristjánsdóttir, formaður Innflytjendaráðs
Tónlist
Sálrænir fylgifiskar þess að setjast að í nýju landi: Aleksandra Chlipala, menningarsálfræðingur
Pallborð: Slawomir Pilecki, Abdelfattah Laaraibi, Shyamali Ghosh, Elsa Arnardóttir
Tónlist/dans

14.30 Kaffi

14.45 Landnáma hin nýrri: Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður
Fjölmenningarsamfélög Evrópu; Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur
Pallborð: Guðmundur Steingrímsson, Einar Skúlason, Amal Tamimi, Helga Ólafs

16.30 Dagskrárlok

Laugardagur 5. nóvember:
10.00 Ávarp: Toshiki Toma, prestur innflytjenda
Hlutverk sveitarfélags: Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi
Hvernig geta innflytjendur haft áhrif á samfélagið? Amal Tamimi, framkvæmdastýra og þingmaður
Pallborð: Bernd Ogdronik, Paul Ramses, Ágúst Pétursson

11.00 Kaffi

11.10 Fjölskyldur og börn innflytjenda: Anna Kirova, prófessor við Háskólann í Alberta, Kanada
Pallborð: Paola Cardenas, Sigurveig Kristjánsdóttir, Piotr Adam Mochola,

12.00 Matur

13.00 Áskorun aldarinnar!: Anna Kirova, prófessor við Háskólann í Alberta, Kanada
Pallborð:
Ahmed Taha Saddeeq, Imam – frá sjónarhóli múslima
Tatjana Latinovic – frá sjónarhóli innflytjendakvenna
Sigríður Víðis – frá sjónarhóli Íslendings
Guðrún Vala Elísdóttir - um náms- og starfsráðgjöf
Fulltrúi frá Alþjóðatorgi ungmenna – frá sjónarhóli ungs fólks af erlendum uppruna
Að leiðarlokum: Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri Brjótum múra!

14.15 Ráðstefnuslit

14.00 Þjóðahátíð í íþróttahúsinu að Jaðarsbökkum. Allir hjartanlega velkomni