Vel heppnuð kynningarvika á Akranesi

26. okt. 2007

Í kynningarvikunni var mikið um að vera á Akranesi. Á fimmtudeginum komu saman um þrjátíu sjálfboðaliðar í Rauða kross húsinu til þess að stilla saman strengi sína áður en haldið var út í bæ að dreifa bæklingum og kynna innanlandsstarf Rauða krossins. Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri og Ómar Kristmundsson, formaður, voru í heimsókn og hittu hópinn áður en af stað var haldið.

Á laugardeginum stóðu sjálfboðaliðar fyrir opnu húsi til þess að kynna verkefni deildarinnar og safna nýjum sjálfboðaliðum til góðra verka. Þar gafst gestum kostur á því að spjalla við sjálfboðaliða um verkefni þeirra, sjúkraflutningamenn voru á staðnum og sýndu sjúkrabílana, Hjálpfús skemmti börnunum og boðið var upp á kaffi og vöfflur.

Gestir voru einhuga um að starf Rauða krossins væri ákaflega mikilvægt til þess að sporna gegn mismunun og hverskyns eymd og lýstu margir áhuga á því að koma til starfa hjá deildinni. Mikil hugur var í hópnum sem hitti vegfarendur fyrir utan matvöruverslanir og íþróttamiðstöð.

Sjálfboðaliðarnir sinna ýmsum verkefnum á Akranesi, heimsóknarþjónustu, starfi með innflytjendum, ungmennamálum og skyndihjálp. Kynningarvika Rauða krossins gekk vel á Akranesi, nokkuð hefur fjölgað í hópi sjálfboðaliða og unnið er í því að koma nýjum hópum af stað að frumkvæði nýju sjálfboðaliðanna.